Túnfiskspastaréttur

Ég hafði aldrei þorað að setja túnfisk í pasta, veit ekki afhverju, mér hafði aldrei þótt það girnilegt þegar ég sá myndir í uppskriftabókum. En svo einu sinni, þá fórum við út að borða á Guachos, á Harrow-on-the-Hill (þar sem við bjuggum einu sinni í Bretlandi) og þar smakkaði ég túnfiskspasta og það var algjört æði. Þessi uppskrift hérna fyrir neðan er mín útgáfa (aðeins hollari) af því sem ég borðaði þar. Þetta er afar hollur og góður réttur, próteinríkur en magur og inniheldur nauðsynlegar omega fitusýrur. Fullkomin máltíð í nestisboxið eða sem léttur kvöldverður og með nokkrum soðnum eggjahvítum, fullkominn fyrir þá sem eru að koma heim úr líkamsræktinni.


Hollur, einfaldur og góður túnfiskréttur

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án glúteins

Túnfiskspastaréttur

Fyrir 2-3

Innihald

  • 200 g spelt pasta (rör, skrúfur eða skeljar)
  • 1 tsk kókosolía
  • 3 sveppir, sneiddir þunnt
  • 15-20 svartar ólífur, sneiddar þunnt
  • 2 hvítlauksgeirar, pressaðir eða saxaðir smátt
  • 400 gr túnfiskur í vatni (notið einungis Dolphin Friendly túnfisk)
  • 400 ml pastasósa úr heilsubúð
  • 400 g tómatar, saxaðir (eða úr dós)
  • 2 msk tómatmauk (puree)
  • 1 tsk svartur pipar
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt) ef þarf. Yfirleitt er nægilega mikið salt í túnfiskinum
  • Ferskur parmesan, rifinn (má sleppa)
  • Ferskt basil, saxað (má sleppa)

Aðferð

  1. Byrjið á því að sjóða pastað samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.
  2. Látið renna af pastanu, kælið undir kaldri bunu í nokkrar sekúndur og geymið.
  3. Sneiðið sveppina og ólífurnar.
  4. Afhýðið hvítlaukinn og merjið.
  5. Saxið tómatana ef þið notið ekki saxaða tómata úr dós.
  6. Hitið kókosolíu í potti og hitið hvítlauk, sveppi og ólífur. Notið vatn ef þarf meiri vökva.
  7. Kryddið með svörtum pipar pipar.
  8. Hellið pastasósunni, tómötunum og tómatmaukinu saman við og hitið þangað til sósan er orðin vel heit.
  9. Látið vatnið renna af túnfiskinum og bætið honum út í pottinn. Hrærið varlega þannig að það séu enn þá bitar í túnfisknum þ.e. passið að sundurtæta hann ekki.
  10. Bætið soðna pastanu saman við og hitið vel.
  11. Berið fram með rifnum parmesan og jafnvel söxuðum basil blöðum.

Gott að hafa í huga

  • Ég vildi frekar leyfa pastasósunni að njóta sín meira en pastað sjálft og ég notaði því frekar lítið pasta. Ef þið viljið, bætið þá meira pasta út í.
  • Venjulegar pastasósur geta verið varhugaverðar því þær innihalda oft sykur, alls kyns aukaefni og jafnvel litarefni. Sú pastasósa sem þið kaupið ætti að vera með tómötum sem aðaluppistöðu og t.d. sveppum, lauk og hvítlauk. Aðalatriðið er að sé ekki sykur í henni og að engin skrýtin aukaefni eins og MSG (Monosodium Glutamate eða einhver E-600 efni). Einnig ætti pastasósa ekki að innihalda mikla fitu þar sem pastasósur eiga að vera léttar og fínar. Kaupið helst lífrænt framleiddar sósur úr heilsubúð.
  • Ef þið hafið glúteinóþol má nota glúteinlaust pasta.

Ummæli um uppskriftina

Zordis
30. apr. 2011

Hlakka til að prófa þennan rétt, Er með hrísgrjónapasta í suðu og túnfisksósan er dásemd. Bíður bara samrunans :-)

sigrun
30. apr. 2011

Vona að bragðist vel :) Rétturinn er jafnvel betri á morgun, kaldur eða heitur :)