Tofu- og kjúklingabaunabuff
27. febrúar, 2003
Þetta eru hollir og léttir grænmetisborgarar. Ég steiki aldrei, aldrei grænmetisborrgara heldur baka ég þau í ofni. Mér finnst heldur ólystugt að borða mat sem er löðrandi í óþarfa fitu. Borgarar og buff eru alveg frábær bökuð í ofni. Mér finnst alveg frábært að setja nokkur svona buff í nestisboxið og ég hef líka tekið þau með mér í útilegur og göngur og hitað upp á grilli.
Auðvelt er að gera þessi buff mjólkurlaus og hnetulaus. Sleppa má hnetunum og nota má sojaost í staðinn fyrir venjulegan ost. Það eru engin egg og ekkert hveiti í þessari uppskrift svo hún hentar vel þeim sem hafa glútein- og eggjaóþol.
Athugið að þið þurfið matvinnsluvél eða blandara til að mala hneturnar (en þið getið líka sett þær í poka og lamið þær með hamri).
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án eggja
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án mjólkur
- Vegan (fyrir jurtaætur)
Tofu- og kjúklingabaunabuff
Fyrir 2-3
Innihald
- 2 stórar kartöflur, soðnar, skrældar og stappaðar
- 50 g hnetur, malaðar fínt (t.d cashewhnetur)
- 1 hvítlauksrif, afhýtt og saxað smátt
- 10 sólþurrkaðir tómatar (án olíu), saxaðir smátt
- 3 msk graslaukur, saxaður smátt (má sleppa)
- 250 g stíft tofu, þerrað með þurrku
- 1 msk kókosolía
- 200 g kjúklingabaunir í dós
- 100 g magur ostur, rifinn
- 0,5 tsk turmeric
- 0,5 tsk cumin (ekki kúmen)
- Smá klípa cayenne pipar
- 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt). Notið aðeins smá klípu ef kjúklingabaunirnar eru með viðbættu salti)
Aðferð
- Sjóðið kartöflurnar þangað til þær eru orðnar mjúkar. Kælið, skrælið og stappið.
- Setjið hneturnar í matvinnsluvél og látið vélina ganga í um 5-10 sekúndur eða þangað til hneturnar eru orðnar fínt malaðar.
- Látið vatnið renna af kjúklingabaununum setjið baunirnar í matvinnsluvélina og maukið í um 5 sekúndur.
- Afhýðið hvítlauk og saxið mjög smátt.
- Saxið sólþurrkuðu tómatana og graslaukinn smátt.
- Hellið vatninu af tofuinu og þerrið með eldhúsþurrku. Myljið gróft.
- Rífið ostinn á rifjárni.
- Setjið ofangreint hráefni í stóra skál og setjið kókosolíu, turmeric, cumin, cayenne pipar og salt saman við. Hrærið mjög vel.
- Skiptið blöndunni í um 15 hluta. Mótið buff í höndunum (um 1 sm á þykkt).
- Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og raðið buffunum á plötuna.
- Bakið við 180°C í um 20 mínútur. Snúið við og bakið áfram í um 10 mínútur.
Gott að hafa í huga
- Ef þið viljið hafa borgarana stökkari, þá skulið þið baka þá í lengri tíma á hvorri hlið.
- Gott er að bera fram sinnepssósu með borgurunum eða hvítlauksjógúrtsósu.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
- Nota má sojaost í staðinn fyrir venjulegan ost.
- Ef þið finnið aðeins sólþurrkaða tómata í olíu má annað hvort þerra olíuna með eldhúsþurrku en einnig hef ég notað þessa aðferð: Setjið sólþurrkuðu tómatana í sigti og hellið sjóðandi heitu vatni yfir þá (um 500 ml eða svo). Þerrið með eldhúsþurrku.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025