Svartbauna- og maískornasúpa

Þessi súpa er úr bók sem ég á sem heitir Marie Claire: Kitchen –The Ultimate Recipe Collection og inniheldur helling af góðum uppskriftum. Súpan er mild og létt en um leið trefja- og próteinrík en svartar baunir innihalda óvenju mikið prótein (svona miðað við baunir að minnsta kosti). Svo er súpan líka ódýr og þó hún sé ekki sparilegasta súpa í heimi passar hún vel sem létt máltíð í miðri viku. Ég hafði meira af baunum en átti að vera því mér finnst þær góðar. Ég átti svolítinn afgang af súpunni eitthvert skiptið og bætti speltpasta út í hana áður en ég hitaði hana svo upp í kvöldmat og úr varð reglulega góð máltíð.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Svartbauna- og maískornasúpa

Fyrir 2-3

Innihald

  • 270 g maískorn (frosin eða úr dós, án sykurs)
  • 1 tsk kókosolía
  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt
  • Hálfur rauður chili pipar, saxaður smátt
  • 1 msk tómatmauk (puree)
  • 0,5 tsk paprika, reykt (enska: smoked paprika)
  • 600 ml vatn
  • 1,5 gerlaus grænmetisteningur
  • 400 g svartar baunir (enska: black beans) í dós. Hellið vatninu af

Aðferð

  1. Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt.
  2. Skerið chili piparinn langsum og fræhreinsið. Saxið smátt.
  3. Hitið kókosolíuna í stórum potti.
  4. Steikið lauk, hvítlauk og chili pipar þangað til allt fer að mýkjast vel og ilma. Bætið við vatni ef þarf meiri vökva.
  5. Bætið tómatmaukinu, reyktu paprikunni, vatninu og grænmetisteningunum út í. Hrærið vel í 2 mínútur.
  6. Bætið vatninu og maískornunum saman við. Látið suðuna koma upp.
  7. Látið malla í 15 mínútur og þynnið með meira vatni ef þið viljið þynnri súpu.
  8. Hellið vökvanum af baunum og bætið þeim út í. Látið malla í 5 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Í upphaflegu uppskriftinni var smá slettu af sýrðum rjóma bætt út í en mér finnst það ekkert sérstaklega gott. Bætið við sýrðum rjóma ofan á súpuna ef ykkur langar til. Ég nota 5% sýrðan rjóma án gelatíns (frá Mjólku).
  • Það er upplagt að bæta við í súpuna, afgangsgrænmeti úr ísskápnum eins og t.d. selleríi, gulrótum, kartöflum o.fl.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.