Svalandi ananas- og kókosdrykkur frá Uganda
Í rúmlega 40 stiga sátum við Jóhannes ásamt fleira fólki á Ginger sem er veitingastaður í bænum Jinja sem er alveg við upptök Nílar í Uganda eða þar sem Níl byrjar og Viktoríuvatn endar. Við vorum að bráðna, það var nánast óbærilegur hiti og við vorum að borða hádegismatinn á heitasta tíma dagsins. Maturinn á Ginger var frábær, meiriháttar blanda af afrískum og evrópskum mat og matseðillinn sérstakur. Það var eitt á matseðlinum sem vakti mikla athygli okkar allra (svona miðað við ástandið á okkur) og það var Tropical Cooler. Í drykknum var meðal annars ísmolar, ananas (í Uganda finnur maður besta ananas í heimi að mínu mati) og kókosvatn. Okkur var lofað að ísmolarnir væru öruggir (þ.e. vatnið hreint) og að drykkurinn væri ÍSkaldur. Það var svo sannarlega tónlist í okkar eyrum. Eftir stutta stund komu þjónarnir með heila hrúgu af drykkjum á borðið okkar og þetta var svo sannarlega svalandi, suðrænt og frábært. Ekki skemmir fyrir að drykkurinn er afar hollur og vítamínríkur. Kókosvatn (vatnið úr óþroskaðri kókoshnetu inniheldur enga fitu, er hitaeiningasnautt en inniheldur kalk, magnesíum, potassíum og fleira sem er gott fyrir bein og taugar. Vissuð þið að vatn úr óþroskuðum kókoshnetum hefur verið notað í blóðgjafir t.d. í Afríku þar sem kókosvatnið er víst sambærilegur blóðvökvanum í okkur! Að drekka kókosvatn virkar á suma eins og að fá blóð beint í æð! Kókosvatn er einnig frábær íþróttadrykkur eftir ræktina, hlaupið eða hvað svo sem maður er að reyna á líkamann.
Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa þennan drykk. Athgið einnig að kókosvatn (enska: coconut water) er ekki það sama og kókosmjólk (coconut milk).
Suðrænn og svalandi drykkur sem er frábær í hitanum
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
- Hráfæði
Svalandi ananas- og kókosdrykkur frá Uganda
Innihald
- 4 ísmolar
- 100 g vel þroskaður ananas, afhýddur, kjarnhreinsaður og saxaður gróft
- 330 ml kókosvatn (enska: coconut water)
- 1 msk agavesíróp
Aðferð
- Afhýðið ananas, kjarnhreinsið og skerið í bita.
- Setjið ísmolana í blandara ásamt 50 ml af kókosvatninu og blandið í nokkrar sekúndur.
- Bætið ananas út í ásamt 50 ml af kókosvatninu og blandið í um 10 sekúndur eða þangað til ananasinn er vel maukaður.
- Setjið afganginn af kókosvatninu ásamt agavesírópinu út í og blandið í nokkrar sekúndur í viðbót.
- Berið fram strax (hrærið í drykknum ef einhver tími líður þangað til þið berið hann fram því það sest til í honum).
Gott að hafa í huga
- Kókosvatn fæst í heilsubúðum sem og í heilsuhillum stærri matvöruverslana (er yfirleitt í litlum fernum í kælinum).
- Nota má svolítinn ananassafa á móti kókosvatninu.
- Athugið að kókosmjólk er ekki það sama og kókosvatn.