Súkkulaðiostakaka

Ostakökur eru yfirleitt ekki hollar. Punktur. Hvað þá súkkulaðikökur. Þessi er samt í hollari kantinum því ég nota skyr og fitusnauðari ost og svo nota ég heimatilbúið muesli og hollt spelt- eða hafrakex. Sem sagt ekki svo mikill glæpon. Hægt er að nota carob í stað súkkulaðis.

Auðvelt er að gera þessa uppskrift hnetulausa með því að sleppa hnetunum sem eru í muesliinu.

Athugið að carob/súkkulaði getur innihaldið mjólk svo skoðið innihaldið ef þið hafið mjólkurofnæmi.

Súkkulaðiostakaka

Gerir 1 köku

Innihald

  • 500 g curd cheese (hlaupostur eða ystingur) 12% fita eða minna (hægt er að nota Philadelphia Creem Cheese, 15% Light)
  • 250 g kvarg (fitulaus ostur). Hægt er að nota skyr í staðinn
  • 100 g dökkt, gott súkkulaði t.d. frá Rapunzel (einnig má nota carob)
  • 2 msk kókosfeiti
  • 2-3 msk hreinn appelsínusafi
  • 175 g gróft hafrakex (það hollasta, sykurminnsta og fituminnsta sem þið finnið, ætti ekki að fara upp fyrir 15 g af fitu og sykur ætti ekki að vera í efstu sætunum nema og alls ekki nema það sé hrásykur. Einnig má nota speltkex. Hægt er að fá hollari kex í heilsubúðum
  • 25 g muesli (ég nota heimatilbúið en nota má eitthvað annað gott musli með rúsínum og hnetum)
  • 3 stór egg eða 4 lítil
  • 2 msk agavesíróp
  • 2 msk rapadura sykur
  • 2 tsk vanilludropar eða vanilluduft

Aðferð

  1. Hitið ofninn í 150°C
  2. Fyrst byrjið á því að búa til botninn:
  3. Setjið kexið í poka og farið með kökukefli yfir þangað til það er nánast orðið að dufti.
  4. Setjið mulninginn í skál.
  5. Bætið muesliinu út í.
  6. Setjið kókosfeitina, agavesírópið og appelsínusafann yfir og blandið vel saman.
  7. Færið nú blönduna í form (svona form með lausum botni). Ég nota alltaf bökunarpappír svo ég þurfi ekki að setja olíu undir eða smjör í botninn.
  8. Bakið í 20 mínútur.
  9. Í annari skál, blandið saman curd ostinum (eða philadelpha ostinum), kvarginu (eða skyrinu), eggjunum, rapadura sykrinum og vanilludropunum og hrærið með handþeytara þangað til blandan verður flaueliskennd og mjúk.
  10. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði (hitið vatn í potti og setjið skál ofan í vatnið. Brjótið súkkulaði ofan í skálina. Vatnið má aldrei komast í snertingu við súkkulaðið því þá skemmist það).
  11. Þegar súkkulaðið er orðið bráðið, setjið helminginn af ostablöndunni í skál og hellið súkkulaðinu varlega saman við og hrærið vel.
  12. Hellið varlega yfir ostakökubotninn, til skiptis, súkkulaðiostablöndunni og hreinu blöndunni. Dragið gaffal nokkrum sinnum í gegnum yfirborðið til að búa til marmaraáferð.
  13. Bakið í 30 mínútur.
  14. Eftir 30 mínútur, slökkvið þá á ofninum og leyfið ostakökunni að kólna alveg inn í ofninum. Má vera yfir nótt.
  15. Setjið ostakökuna, með plasti yfir, inn í ísskáp og leyfið að kólna í a.m.k. 4 tíma.

Gott að hafa í huga

  • Það er fínt að gera kökuna daginn áður en á að borða hana því hún er bara betri daginn eftir.
  • Ef þið viljið hafa ostakökuna alveg dökka, þ.e. ekki svona röndótta, blandið þá bræddu súkkulaðinu við allt ostakremið í einu, ekki bara helminginn af því.