Súkkulaðikaka í magrari kantinum, með kremi

Þetta er prýðileg „súkkulaðikaka” og já, já, já ég veit að hún er ekkert í líkingu við djúsí, franska súkkulaðiköku en maður þarf þó ekki að hafa samviskubit yfir stífluðum æðum og 100 aukakílóum! Fyrir ykkur sem eruð vön að borða dísætar súkkulaðikökur þá er þessi ekki fyrir ykkur, bara svo það sé á hreinu. Athugið að ég er alls ekki á móti fitu sem slíkri (holl fita er okkur nauðsynleg) en hefðbundnar súkkulaðikökur falla alls ekki í flokk með hollri fitu.

Til að útbúa þessa uppskrifti þurfið þið 22 sm kringlótt bökunarform og matvinnsluvél eða blandara.

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án hneta

Súkkulaðikaka í magrari kantinum, með kremi

Gerir 1 köku

Innihald

Kakan:

  • 200 g spelti
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 3 msk kakó
  • 250 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
  • 175 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 2 msk agavesíróp
  • 2 egg
  • 1 eggjahvíta
  • 4 msk kókosolía

Súkkulaðikremið:

  • 3-4 msk kakó eða carob
  • 1 banani, mjög vel þroskaður
  • 1 msk sojamjólk
  • 2 msk vanilludropar (úr heilsubúð)
  • 4 msk agavesíróp
  • 1 msk kaffi (má sleppa)
  • 2 msk kartöflumjöl (ef þarf)

Aðferð

Aðferð - Kakan:

  1. Sigtið saman í stóra skál; spelti, lyftiduft og kakó. Hrærið vel.
  2. Í aðra skál skuluð þið hræra saman eggi, eggjahvítu, barnamat, agavesírópi, rapadura hrásykri og kókosolíu. Blandið vel saman og hellið út í stóru skálina.
  3. Hrærið létt í deiginu og alls ekki of mikið (rétt veltið því við). Bætið sojamjólk saman við ef þarf. Deigið á að vera það blautt að það leki af sleif í stórum kekkjum og ekki t.d. það þurrt að hægt sé að hnoða það.
  4. Klæðið 22 sm kringlótt bökunarform með bökunarpappír. Hellið deiginu út í.
  5. Bakið við 180°C í 30-35 mínútur. Gætið þess að baka kökuna ekki of lengi.

Aðferð - súkkulaðikremið:

  1. Setjið banana, sojamjólk, vanilludropa, kaffi og agavesíróp í matvinnsluvél eða blandara. Blandið í 10 sekúndur. Bætið kakóinu út í og blandið áfram í 5 sekúndur. 
  2. Kælið kremið í klukkustund í ísskáp.
  3. Dreifið kreminu vel yfir kökuna.

Gott að hafa í huga

  • Það er gott að búa til muffinsa úr þessu deigi því það er frekar blautt og létt.
  • Fyrir svolítinn meiri lúxus má setja saxað súkkulaði í kökuna. Notið um 50 g af dökku, lífrænt framleiddu súkkulaði með hrásykri.
  • Einnig er gott að setja lúku af söxuðum valhnetum í deigið.
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Ég nota Hipp Organic, Organix eða Holle barnamat. Þessi merki eiga það sameiginlegt að vera lífrænt framleidd og eru ekki með viðbættum sykri.
  • Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
  • Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
  • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.

Ummæli um uppskriftina

Margrét Árna
13. apr. 2011

Hæhæ :)

Vantar afmælisköku fyrir barnaafmæli, er þessi ekki upplögð í það?
Hve mikið myndirðu margfalda þessa í venjulega ofnskúffu? :)

sigrun
13. apr. 2011

Sæl Margrét

Ég hef ekki prófað hana sem skúffuköku (líklega þarftu að gera uppskriftina 3falda). Ég myndi ráðleggja þér að gera tilraun á kökunni fyrst þ.e. smakka hana, áður en þú útbýrð hana fyrir afmæli, svona just in case. Hún er alls ekki eins og venjulegar 'skúffukökur' svo það væri ekki gaman ef börnin myndu skyrpa henni út úr sér :)

Þú getur bætt kókosmjöli ofan á kökuna og i deigið svona til að gera hana meira skúffukökulega.

Margrét Árna
13. apr. 2011

Þetta er fyrir vöggustofubörn á leikskóla hérna í Arhus, DK :)
Þau fá bara lífrænt þar :)

En myndirðu mæla með einhverri annarri sem þá afmælisköku?

sigrun
13. apr. 2011

Hvað eru börnin gömul og mega þau fá hnetur? Ég á nokkrar uppskriftir í handraðanum sem gætu hugsanlega gengið :)

Margrét Árna
13. apr. 2011

Þau eru á aldrinum 9 mán til 3 ára held ég :) Skal spurja á eftir þegar ég næ í stelpuna mína hvort það sé einhver með hnetuofnæmi, held samt ekki því þá væri búið að láta alla foreldra vita þar sem það er svo hættulegt ofnæmi

sigrun
13. apr. 2011

Ok, fyrst þau eru þetta ung borgar sig ekki að nota hnetur (bara til öryggis). Sendu mér tölvupóst á sigrun@cafesigrun og ég skal svara þér til baka með uppskriftum sem gætu hentað :)

Margrét Árna
13. apr. 2011

Búin að senda var það ekki örugglega .com sendi á sigrun@cafesigrun.com allavega :)