Súkkulaðibúðingur (með tofu)

Já það er magnað að þessi búðingur sé hollur. Enginn rjómi, ekkert smjör, ekkert matarlím og aðeins 4 msk rapadura hrásykur. Hann er mjög próteinríkur því það eru eggjahvítur í honum en einnig er tofu sem gerir búðinginn kremaðan og fínan. Ég notaði dökkt súkkulaði, með hrásykri. Hægt er að nota ljóst súkkulaði líka en dökkt gefur sterkara bragð og er mun hollara þar sem í kakóbaununum eru holl andoxunarefni. Ef þið hafið mjólkuróþol skuluð þið athuga innihaldið varðandi mjólkurvörur. Athugið að það eru hráar eggjahvítur í uppskriftinni svo hún hentar ekki ungum börnum, ófrískum konum eða fólki sem er almennt viðkvæmt fyrir. Gera þarf uppskriftina um 4 klukkustundum áður en á að bera hana fram en ekki er gott þó að láta hana standa lengur en það í ísskáp þar sem eggjahvíturnar og tofuið fer að leka smávegis og sitja eftir í botninum. Uppskriftin kemur úr bók sem heitir Healthful Cooking sem Jóhannes keypti handa mér.

Athugið að þið þurfið handhrærivél eða hrærivél til að útbúa uppskriftina. Einnig er gott að nota blandara eða matvinnsluvél.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur

Súkkulaðibúðingur (með tofu)

Fyrir 2

Innihald

  • 4 eggjahvítur, við stofuhita
  • 4 msk rapadura hrásykur eða annar hrásykur
  • 125 g dökkt lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri
  • 125 g tofu, mjúkt (ekki stíft), við stofuhita
  • 1 tsk agavesíróp, við stofuhita
  • 1 tsk kakónibbur (enska: cacao nibs), má sleppa

Aðferð

  1. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði: Hitið vatn í potti (bara botnfylli) á vægum hita. Setjið skál ofan í sem situr á brúnum pottsins og brjótið súkkulaðið ofan í. Fylgist með því og hrærið öðru hvoru þangað til nánast bráðnað, takið þá af hitanum. Gætið þess að súkkulaðið ofhitni ekki og að ekki fari vatnsdropi ofan í súkkulaðiskálina.
  2. Látið súkkulaðið kólna við stofuhita. Það má ekki vera of heitt því þá verður búðingurinn grófkornóttur þegar hann blandast við tofuið.
  3. Setjið tofu og agavesíróp í matvinnsluvél eða blandara og maukið í nokkrar sekúndur. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél eða blandara getið þið notað hrærivél/handhrærivél.
  4. Þeytið eggjahvíturnar hrærivél/handhrærivél. Gætið þess að skálin sem þið notið sé tandurhrein og fitulaus. Þeytið í um 2 mínútur á meðalhraða þangað til þær verða loftkenndar og hvítar. Aukið hraðann og stífþeytið í um 2-3 mínútur eða þangað til mjúkir toppar hafa myndast.
  5. Bætið einni matskeið við í einu af hrásykrinum, hrærið í 10 sekúndur og svo koll af kolli. Þegar allur sykurinn hefur blandast saman við eggjahvíturnar, hrærið þá í um 2-3 mínútur eða þangað til eggjahvíturnar eru orðnar glansandi og stífar.
  6. Blandið þriðjungi af eggjahvítunum út í súkkulaðiblönduna með gúmmísleif, hrærið afar varlega og passið að merja ekki loftið úr.
  7. Hellið þessu því næst út í afganginn af eggjahvítunum og hrærið varlega þangað til allt er orðið blandað saman. Setjið í skál.
  8. Setjið plastfilmu yfir skálina og setjið inn í ísskáp. Látið stífna í um 3 tíma áður en á að borða búðinginn.
  9. Ef einhver vökvi er á botninum eftir 3 tíma, hellið honum þá varlega frá.
  10. Dreifið kakónibbunum yfir og berið fram.

Gott að hafa í huga

  • Til að breyta til mætti nota dökkt súkkulaði með appelsínubragði og dreifa svolitlum appelsínuberki yfir músina. Ég er hrifin af súkkulaðinu frá Green & Black's og Rapunzel.
  • Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur yfirleitt mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi. Hægt er að nota mjólkurlaust súkkulaði í staðinn.
  • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.