Súkkulaðibitaís

Ég var lengi búin að vera að prófa mig áfram með ís sem væri hollur, léttur og án eggja. Ég held að það hafi tekist hér. Þessi uppskrift er einföld og má nýta hana sem grunnuppskrift í alls kyns ís. Hann inniheldur mun minni fitu en venjulegur ís þar sem ég nota matreiðslurjóma (15%) og ég notaði léttmjólk í staðinn fyrir fitumeiri mjólk eða feitan rjóma. Einnig má nefna að það eru engin egg í uppskriftinni og því tilvalinn fyrir þá sem hafa eggjaóþol. Það þarf heldur ekki að þeyta rjómann. Hægt er að gera ísinn mjólkurlausan með lítilli fyrirhöfn og notar maður þá hafrarjóma í staðinn fyrir matreiðslurjóma og sojamjólk eða aðra mjólk í staðinn fyrir undanrennu.

Gott er að nota matvinnsluvél eða blandara til að útbúa ísblönduna en ekki er nauðsynlegt að nota ísvél.


Nammi namm, holl útgáfa af ís. Myndina tók Jónsi vinur minn

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Súkkulaðibitaís

Fyrir 4-5

Innihald

  • 50 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri
  • 2 bananar, vel þroskaðir, saxaðir smátt
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
  • 90 ml agavesíróp
  • 200 ml matreiðslurjómi (eða hafrarjómi eða sojarjómi)
  • 150 ml léttmjólk eða sojamjólk (eða önnur mjólk)

Aðferð

  1. Saxið súkkulaðið smátt og setjið til hliðar.
  2. Setjið banana, sítrónusafa, vanilludropa, agavesíróp, rjóma og mjólk í blandara. Blandið í um 10 sekúndur. 
  3. Ef notuð er ísvél: Setjið blönduna í ísvél í um 30 mínútur. Bætið súkkulaðinu saman við og setjið svo í plastbox. Setjið boxið í frystinn og frystið í nokkrar klukkustundir eða þangað til ísinn er tilbúinn.
  4. Ef ekki er notuð ísvél:
  5. Hellið blöndunni í grunnt plastbox og setjið í frystinn. Takið út frystinum á um hálftíma - klukkustundar fresti og brjótið ískristallana ef þeir myndast. Þegar ísinn er farinn að stífna, bætið þá súkkulaðinu út í. Frystið áfram og takið ísinn út til að brjóta ískristallana eins oft og þörf krefur.
  6. Látið ísinn þiðna í ísskáp í um 30-40 mínútur áður en hann er borinn fram. Þannig verður auðveldara að skafa úr boxinu.

Gott að hafa í huga

  • Nota má kakó í uppskriftina til að útbúa súkkulaðiís. Notið um 2 msk af kakói.
  • Nota má carob í stað súkkulaðis og kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
  • Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur yfirleitt mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi. Hægt er að nota mjólkurlaust súkkulaði í staðinn.
  • Mjög gott er að bæta 30 g af kókosmjöli í uppskriftina.
  • Nota má kókosmjólk á móti rjómanum.
  • Nota má döðlur í staðinn fyrir súkkulaði.
  • Nota má hrísmjólk, möndlumjólk eða haframjólk í staðinn fyrir sojamjólk eða léttmjólk.