Súkkulaðiávaxtakakan hennar Nigellu

Þessa uppskrift sendi Lísa Hjalt vinkona mín mér. Upprunalega er uppskriftin frá Nigellu Lawson en ég er búin að gera hana hollari. Til dæmis sleppti ég 175 grömmum af smjöri, 175 g af sykri, 125 ml af líkjör (sem er eiginlega bara sykur) o.fl. Kakan varð merkilega góð þrátt fyrir niðurskurðinn. Hún er líka afburða holl því sveskjur innihalda trefjar og alveg fáránlegt magn af andoxunarefnum, meira en helmingi meira en t.d. bláber og einnig innihalda sveskjur járn. Möndlur og cashewhnetur innihalda prótein og holla fitu og margt fleira hollt má finna í kökunni. Ég vona að Nigella verði ekki reið þó ég sé búin að breyta kökunni svona mikið en hún heitir Chocolate Fruitcake ef þið viljið finna hana á matarvef BBC. Ég bætti líka aðeins við í uppskriftina t.d. heslihnetum og söxuðu súkkulaði svona fyrir áferðina en kakan er ansi massíf. Hún er þétt og þung, næstum eins og stífur búðingur og hentar vel þeim sem finnst enskar jólakökur góðar. Ef ykkur finnst þær almennt ekki góðar þá er þessi kaka ekki fyrir ykkur! Athugið að skreyta átti kökuna með gulli sem má borða en þið getið rétt ímyndað ykkur hvað mér finnst um svoleiðis óþverra ha ha.

Athugið að nauðsynlegt er að nota matvinnsluvél fyrir þessa uppskrift og einnig þurfið þið 20 sm kringlótt kökuform. Athugið einnig að gott er að flýta fyrir sér með því að kaupa ristaðar og afhýddar heslihnetur (hakkaðar).

Þessi uppskrift er:

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur

Súkkulaðiávaxtakakan hennar Nigellu

Gerir eina massífa köku

Innihald

 • 50 g cashewhnetur
 • 50 g möndlur (eða cashewhnetur)
 • 400 g sveskjur, saxaðar gróft
 • 250 g rúsínur
 • 125 g döðlur, saxaðar gróft
 • 2 appelsínur, safi (200 ml) og börkur (rifinn á rifjárni)
 • 125 lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
 • 100 ml agavesíróp
 • 125 ml sterkt kaffi (eða 1 msk í viðbót af kakói og 125 ml af vatni)
 • 0,5 tsk kanill
 • 0,5 tsk engifer
 • 0,5 tsk múskat (enska: nutmeg)
 • 2 msk kakó
 • 150 g spelti
 • 0,5 tsk vínsteinslyftiduft
 • 2 egg
 • 5 msk kókosolía
 • 100 g heslihnetur, (ristaðar og afhýddar), saxaðar gróft
 • 50 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri, saxað gróft

Aðferð

 1. Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í nokkrar mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðinu af.
 2. Setjið möndlur og cashewhnetur í matvinnsluvélina og blandið í um 1 mínútu eða þangað til orðið nánast að mauki eða a.m.k. mjög fínmalað.
 3. Rífið appelsínubörkinn og saxið svekjur og döðlur gróft.
 4. Setjið í stóran pott: sveskjur, döðlur, appelsínusafa, appelsínubörk, barnamat, cashewhnetu- og möndlumaukið, kaffi og agavesíróp. Hitið þangað til fer að sjóða og látið malla í 10 mínútur.
 5. Takið af hitanum og látið standa í 30 mínútur.
 6. Saxið súkkulaði og heslihnetur.
 7. Sigtið saman í stóra skál spelti, kanil, múskat, engifer, kakó og lyftiduft. Hrærið vel.
 8. Hellið ávaxtablöndunni út í stóru skálina og blandið öllu vel saman án þess að hræra mjög mikið.
 9. Bætið eggjum og kókosolíu saman við og hrærið aðeins áfram.
 10. Bætið saxaða súkkulaðinu og söxuðu heslihnetunum saman við.
 11. Hrærið þangað til allt hefur blandast vel saman (8-10 hreyfingar ættu að vera nóg, ekki hræra of mikið).
 12. Klæðið 20 sm lausbotna kökuform með bökunarpappír. Hellið deiginu í formið og gætið þess að það séu ekki loftbólur í því (gott að slá forminu í borðið nokkrum sinnum).
 13. Bakið við 150°C í 1,5 klukkustund (90 mínútur).
 14. Kakan ætti að vera svolítið klístruð en stíf efst og ekki blaut. Ef kakan er mjög mjúk í miðju, bakið þá í 15 mínútur í viðbót og aðrar 15 ef nauðsyn krefur. Kakan ætti alls ekki að verða hörð í miðjunni heldur þvert á móti aðeins of lítið bökuð án þess að vera alveg mjúk eða hrá.
 15. Kælið kökuna.
 16. Ef ekki á að bera kökuna fram strax má frysta hana.
 17. Kakan er góð með smá slettu af þeyttum rjóma eða cashewhneturjómacashewhneturjomi.

Gott að hafa í huga

 • Nota má sítrónubörk á móti appelsínuberkinum.
 • Nota má valhnetur í staðinn fyrir heslihnetur.
 • Nota má kúrenur í staðinn fyrir döðlur.
 • Nota má meira af döðlum á móti sveskjunum.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Ég nota Hipp Organic, Organix eða Holle barnamat. Þessi merki eiga það sameiginlegt að vera lífrænt framleidd og eru ekki með viðbættum sykri.
 • Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
 • Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
 • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
 • Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur yfirleitt mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi. Hægt er að nota mjólkurlaust súkkulaði í staðinn.

Ummæli um uppskriftina

Sigurbjörg
16. sep. 2012

Helduru það sé hægt að gera þessa glúteinlausa?

sigrun
16. sep. 2012

Já já, ekki spurning. Þú gætir notað möndlumjöl og einnig gætirðu notað bara almennt glúteinlaust mjöl úr heilsubúð.