Súkkulaði- og pistachiohafrabitar

Uppskrift þessi kemur upprunalega úr The Australian Women's Weekly seríunni sem ég held mikið upp á. Réttara sagt nota ég bækurnar stundum til að fá hugmyndir en enda á að breyta uppskriftunum svolítið því þær geta verið nokkuð óhollar. Sem dæmi þá í þessari uppskrift áttu að fara 90 g af smjöri. …Það eru næstum því 100 grömm af fitu og næstum því 1000 hitaeiningar. Hmmm. Ég notaði döðlur og rúsínur sem uppfyllingu. Það er alveg næg fita í súkkulaði og hnetum án þess að maður þurfi að bæta meiru við. Að mínu mati a.m.k. Þessir bitar eru stórgóðir og henta vel með kaffinu eða í kaffiboðið því þá má gera með góðum fyrirvara. Þeir eru einnig frekar hollir svona miðað við allt og allt því þeir innihalda holla fitu og prótein úr hnetunum, kolvetni og prótein úr haframjölinu og andoxunarefni og járn úr rúsínum. Rúsínir innihalda nefnilega efnið Phenol sem er andoxunarefni og líka steinefnið Boron sem er mikilvægt fyrir heilbrigð bein! Þessir bitar eru líka frábærir í nestið sem og í gönguferðina.

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél og 20 sm ferkantað bökunarform til að útbúa þessa uppskrift.


Allt er vænt sem vel er grænt

Þessi uppskrift er:

  • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Súkkulaði- og pistachiohafrabitar

Gerir 25 bita

Innihald

  • 90 g döðlur, leggið þær í bleyti í 20 mínútur
  • 20 g rúsínur
  • 75 g pistachiohnetur (ósaltaðar)
  • 170 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði, með hrásykri
  • 170 g haframjöl
  • 20 g kókosmjöl

Aðferð

  • Saxið döðlurnar gróft og leggið í bleyti í 20 mínútur.
  • Ég legg pistachiohnetur alltaf í bleyti og fjarlægi svo hýðið sem er utan á þeim. Það geri ég einungis fyrir fallegri lit á hnetunum en það má alveg sleppa þessu stigi.
  • Hellið vatninu af döðlunum og setjið þær í matvinnsluvél. Látið vélina vinna í um 30 sekúndur eða þangað til döðlurnar eru vel maukaðar. Setjið í stóra skál ásamt rúsínunum.
  • Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði: Hitið vatn í potti (bara botnfylli) á vægum hita. Setjið skál ofan í sem situr á brúnum pottsins og brjótið súkkulaðið ofan í. Fylgist með því og hrærið öðru hvoru þangað til nánast bráðnað, takið þá af hitanum. Gætið þess að súkkulaðið ofhitni ekki og að ekki fari vatnsdropi ofan í súkkulaðiskálina. Hellið brædda súkkulaðinu út í stóru skálina og hrærið vel.
  • Hrærið kókosmjöl, hnetur og haframjöl út í stóru skálina. Hrærið öllu mjög vel saman.
  • Setjið plastfilmu í ferkantað 20 sm bökunarform. Þrýstið blöndunni ofan í botnið á forminu þannig að hún sé jöfn alls staðar (engar holur).
  • Kælið í um 30 mínútur. Skerið í bita og berið fram kalt.

Gott að hafa í huga

  • Nota má aprikósur í staðinn fyrir rúsínur.
  • Nota má carob í stað súkkulaðis og kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
  • Ef þið finnið aðeins saltaðar pistachiohnetur má skola af þeim saltið og baka þær við 160°C í 10 mínútur.
  • Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur yfirleitt mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi. Hægt er að nota mjólkurlaust súkkulaði í staðinn.