Súkkulaði- og möndlubitar (fudge)

Ég veit ekki hvað fudge er á íslensku svo ég lét orðið bara í sviga fyrir aftan nafn uppskriftarinnar. Fudge er eiginlega klesst kaka eða þétt svo þið verðið bara að ímynda ykkur hvernig áferðin er ef þið hafið aldrei smakkað svoleiðis. Þessir bitar eru alveg upplagðir t.d. í afmæli í staðinn fyrir smjör-rjóma-sykur óhollustuna sem er oft borin fram í boðum. Þessir bitar eru ekki léttir svo sem en þeir eru ekki með neinni viðbættri fitu eða sykri eins og margar óhollar kökur eru. Maður fær sér bara lítinn mola með kaffinu og þá þarf maður ekki að hafa neitt samviskubit.

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift sem og 16 sm ferkantað form.


Sérlega einfaldir og fljótlegir bitar, frábærir með kaffinu

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur
 • Vegan (fyrir jurtaætur)

Súkkulaði- og möndlubitar (fudge)

Gerir 12-14 bita

Innihald

 • 130 g döðlur, saxaðar smátt (leggið í bleyti í 20 mínútur ef mjög harðar)
 • 100 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri
 • 40 g rúsínur
 • 75 g möndlur, saxaðar smátt

Aðferð

 1. Hellið öllu vatni vel af döðlunum og þerrið þær með þurrku (ekki má vera mikið vatn á döðlunum).
 2. Saxið döðlurnar smátt og setjið í matvinnsluvél. Blandið í um 30 sekúndur eða þangað til döðlurnar eru mjög vel maukaðar. Setjið til hliðar.
 3. Saxið möndlurnar smátt og setjið í stóra skál ásamt rúsínunum.
 4. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði: Hitið vatn í potti (bara botnfylli) á vægum hita. Setjið skál ofan í sem situr á brúnum pottsins og brjótið súkkulaðið ofan í. Fylgist með því og hrærið öðru hvoru þangað til nánast bráðnað, takið þá af hitanum. Gætið þess að súkkulaðið ofhitni ekki og að ekki fari vatnsdropi ofan í súkkulaðiskálina. Hellið út í stóru skálina og hrærið aðeins.
 5. Bætið döðlumaukinu strax út í stóru skálina og hrærið vel. Það er allt í lagi þó að blandan sé kekkjótt.
 6. Klæðið ferkantað 16 sm form að innan með plastfilmu. Hellið blöndunni út í formið og gætið þess að plastið krumpist ekki mikið að neðan. Ýtið blöndunni vel ofan í botninn og gætið þess að að hún sé alls staðar jöfn (engin göt og ekki mishæðótt). Gott er að jafna blönduna með stórri skeið og þið þurfið að „ýta” blöndunni áfram og til hliðanna. Þetta getur verið svolítið snúið fyrst en svo komist þið upp á lag með þetta. Gerið þetta eins fljótt og þið getið svo að súkkulaðið nái ekki að storkna.
 7. Kælið í um klukkutíma og takið svo úr ísskápnum.
 8. Setjið á skurðarbretti, fjarlægið plastið og skerið í litla bita.
 9. Berið bitana fram kalda og geymið þá í plastboxi í ísskáp.

Gott að hafa í huga

 • Nota má heslihnetur eða Brasilíuhnetur í staðinn fyrir möndlur og einnig má nota aprikósur í staðinn fyrir rúsínur.
 • Nota má carob í stað súkkulaðis og kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
 • Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur yfirleitt mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi. Hægt er að nota mjólkurlaust súkkulaði í staðinn.

Ummæli um uppskriftina

Lee Ann
01. jún. 2011

Þessi uppskrift er sko í uppáhaldi þessa dagana...alveg svakalega gott... :)

sigrun
01. jún. 2011

Gaman að heyra Lee Ann :)

gestur
10. des. 2015

Sæl Sigrún . Eg ætlaði að prófa hollu "jóla kúlu konfektið" og uppskriftin segir 25g fíknir og 25 G döðlur. 2 fíkjur eru om 22-25 gr. Er eg eitthvað að misskilja eða er þetta mjög lítil uppskrift. Eða er kannski vöktun min alveg gúgú?

Takk fyrir
Gunna

sigrun
10. des. 2015

Sæl. Ertu að meina uppskriftina að jólakonfektinu? Gráfíkjur eru mjög misjafnar að stærð, þær geta verið mjög litlar eða mjög stórar svo það er best að miða við grömm frekar en fjölda gráfíkja, þá klikkar uppskriftin ekki.

gestur
10. des. 2015

Takk kærlega, já eg var að meina konfektið. Eg var buin að skera niður 150 GR úbs.
Í þau skipti sem eg hef komið með fyrirspurn her a síðuna þína hef eg alltaf fengið skjót og góð svör.

Takk takk!

sigrun
10. des. 2015

Ekki málið :)