Spurt og svarað

Að matreiða úr hollu hráefni getur verið mun flóknara en úr hefðbundinni smjör-, hveiti- og sykursamsetningu. Ég hef eyðilagt grilljón uppskriftir þegar ég hef verið að gera tilraunir í gegnum tíðina. Það er fátt sem getur klikkað með smjöri, hveiti og sykri (nema auðvitað heilsan) og þess vegna þarf maður að vera svolítið sveigjanlegur þegar maður matreiðir úr hollara hráefni. Að ná leikni í að matreiða úr hollu hráefni getur tekið tíma og þolinmæði. Það skyldi þó enginn örvænta og með svolítilli æfingu getið þið orðið mjög flink í heilsueldhúsinu. Ég tala af reynslu því ég opnaði vefinn minn 2003 og árið 2000 var ég enn þá að borða pakkasúpur og borða þurrt og ósoðið pasta því ég kunni ekki að sjóða það. Hér fyrir neðan er safn af spurningum sem ég hef fengið í gegnum tíðina varðandi bakstur, hráefni og fleira.

Smellið á spurningu hér fyrir neðan og svarið mun birtast fyrir neðan spurninguna.

Ef þið finnið ekki svar við spurningunni ykkar hér, getið þið sent mér fyrirspurn.

Annað

Ef ég sé villu í texta, á ég að láta þig vita?

Já já og aftur já...... Ég hef svo lítinn tíma til að lesa yfir uppskriftirnar svo ef þið sjáið villu í stafsetningu, málfari, innihaldi, innihaldslýsingu eða hverju sem er, endilega sendið á mig og ég laga yfirleitt villurnar með það sama. Ég reyni að birta allt villulaust en tímaleysi háir mér eins og öðrum og saman getum við gert vefinn betri!!

Ég er með vöru sem mig langar að koma á framfæri, getur þú auglýst hana?

Ég auglýsi því miður ekkert sem ég ekki nota sjálf og er hrifin af. Ég auglýsi ekkert gegn greiðslu og ef mér dettur í hug að mæra vöru sérstaklega er það vegna þess að mér líkar hún en ekki vegna þess að ég hafi fengið greitt fyrir hana eða verið umbunað á neinn hátt. Sama á við um vörur sem ég er ekki hrifin af þ.e. stundum rífst ég og skammast út í hitt og þetta. Ég er hreinskilin með það sem ég nota hvort sem ég er ánægð eða óánægð og ekki hægt að breyta þeim skoðunum mínum gegn greiðslu.

Ertu með kaffihús einhvers staðar?

Bara á vefnum...það er nóg í bili!

Hvað er best að eiga í skápunum mínum til að hefja hollara mataræði?

Stundum vantar myndir með uppskriftinni, eiga þær ekki að vera á öllum uppskriftum?

Ég stefni að því að setja inn myndir við allar uppskriftir. Ég byrjaði ekki kerfisbundið að setja inn myndir fyrr en árið 2006. Á árunum 2003-2006 voru sem sagt engar myndir með uppskriftunum og þær fáu sem ég tók voru ljótar því a) ég notaði imbavél og b) ég var ekki að taka myndir til að myndskreyta heldur til að muna hvernig maturinn leit út.

Væri hægt að setja inn upplýsingar um hitaeiningafjölda og næringargildi uppskriftanna?

Já já...ef ég væri á launum við að sinna vefnum vefnum, ekkert mál. Á meðan vefurinn er bara áhugamál sem er ókeypis fyrir alla á ég ekki neinn möguleika á því. Þó það væri gaman.

Þú ert ekki læknir eða næringarfræðingur, máttu ráðleggja varðandi mataræði?

Fyrsta ráðlegging mín er alltaf að notendur vefjarins leiti til fagaðila t.d. læknis eða næringarfræðings. Þegar þið eruð búin að því, getið þið talað við mig. Ef ég get hjálpað á einhvern hátt verð ég glöð en aldrei má stóla á að það sem ég ráðlegg með sé einhver heilagur sannleikur eða lækning við einu né neinu.