Spaghetti ya Mboga (spaghetti með bökuðu grænmeti)
Þessi einfaldi, afríski réttur kom mér á óvart. Ég leyfði tómötunum að malla vel og lengi og það borgar sig að vera þolinmóður því þannig verða þeir bestir og líkastir því sem maður fær í Afríku. Ég ákvað að gera réttinn léttari og bakaði grænmetið í eldföstum mótum í stað þess að steikja það. Ég steikti bara laukinn og hvítlaukinn. Ég nota líka tvöfalt minna af spaghetti en átti að gera því mér finnst betra að borða meira grænmeti heldur en að belgja mig út af spaghetti. Þessi réttur er léttur en þó saðsamur og hentar vel á haustmánuðum. Þessi uppskrift kemur (aðeins breytt) úr bók sem heitir Swahili Kitchen og ég held mikið upp á. Þó að rétturinn virki ekki mikið afrískur þá er hann samt borinn á borð á veitingastöðum eins og á Alfajiri sem reyndar blandar saman swahili áhrifum og ítölskum. Ítölsk áhrif og swahili áhrif í sama potti þýðir yfirleitt að þá er maturinn frá norðurströnd Mombasa í Kenya en þar búa margir Ítalir. Ya Mboga á Swahili þýðir „með grænmeti".
Athugið að þið þurfið tvö eldföst mót fyrir réttinn (til að baka grænmetið í).
Litríkur, afrískur grænmetisréttur
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án glúteins
Spaghetti ya Mboga (spaghetti með bökuðu grænmeti)
Innihald
- 1 tsk kókosolía og smá klípa að auki
- 1 kúrbítur (enska: zucchini/courgette), saxaður í stóra teninga
- 1 eggaldin (enska: eggplant/aubergine), saxað í stóra teninga
- 1 rauðlaukur, saxaður smátt
- 1 hvítlauksgeiri, saxaður smátt eða marinn
- Hálf rauð paprika, sneidd í þunnar sneiðar
- Hálf gul paprika, sneidd í þunnar sneiðar
- Smá sletta tabasco sósa
- 1 msk capers
- 10-12 grænar ólífur, steinhreinsaðar og sneiddar
- 1 bolli tómatmauk (úr heilsubúð þ.e. notið lífrænt framleitt án sykurs)
- 6 tómatar, saxaðir gróft eða samsvarandi magn í dós (um 2 dósir)
- 250 g spelt spaghetti
- 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
Aðferð
- Smyrjið tvö eldföst mót með kókosolíu (setjið smá slettu í eldhúsþurrku og strjúkið mótið að innan).
- Saxið eggaldin og kúrbít í stóra bita.
- Skerið paprikurnar í helminga, fræhreinsið og skerið þær svo í grófar sneiðar. Raðið paprikusneiðunum í eldfast mót. Setjið í miðju ofnsins.
- Setjið eggaldin og kúrbít í annað mót, saltið aðeins og bakið við 220°C í efstu rim ofnsins þangað til grænmetið er alveg að fara að brenna (gæti tekið 20-25 mínútur). Fylgist vel með grænmetinu svo það verði ekki að kolamolum.
- Færið mótið með paprikusneiðunum upp og bakið aðeins lengur.
- Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt.
- Á meðan grænmetið bakast, hitið þá 1 tsk kókosolíu í potti og steikið hvítlauk og lauk í 5-7 mínútur eða þangað til laukurinn verður mjúkur. Ef þarf meiri vökva í pottinn, notið þá vatn.
- Saxið tómatana, sneiðið ólífurnar og bætið út í pottinn ásamt capers og tabasco sósu. Hitið þangað til fer að sjóða. Lækkið þá hitann og látið malla í um 20-30 mínútur eða þangað til vökvinn af tómötunum fer að minnka.
- Bætið bakaða grænmetinu út í pottinn ásamt tómatmaukinu. Hitið í um 10 mínútur eða þangað til allt er orðið vel blandað saman og eins og „gróf pastasósa" að áferð.
- Sjóðið spaghetti á meðan. Setjið vatn í stóran pott, látið suðuna koma upp og sjóðið samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.
- Hellið vatninu af spaghettiinu og skiptið á milli diska.
- Setjið væna slettu af grænmetinu ofan á hverja spagetthihrúgu.
- Einnig má blanda soðnu spaghettiinu út í pottinn (en það mun merjast og fara í sundur svo hrærið varlega og ekki láta sjóða of lengi).
Gott að hafa í huga
- Mér finnst betra að nota rauðlauk í þennan rétt en það má nota venjulegan líka.
- Það má nota heilhveiti spaghetti í staðinn fyrir spelt spaghetti.
- Það er mjög gott að rífa smávegis af ferskum parmesan yfir matinn rétt áður en hann er borinn fram.
- Í uppskriftinni var rauður chili pipar (í stað tabasco sósunnar), saxaður smátt en ég átti ekki chili og tabasco kom vel út.
- Nota má svartar ólífur í staðinn fyrir grænar.
- Það áttu að vera 500 g af spaghetti í réttinum en mér finnst það of mikið. Það er þó smekksatriði og sjóðið tvöfalt meira ef ykkur finnst spaghetti gott eða ef eruð að fá marga í mat.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
- Ef þið hafið glúteinóþol getið þið notað hrísgrjónanúðlur eða soba núðlur í staðinn fyrir spelt spaghetti.