Sörur

Þessar Sörur eru próteinríkar, kalkríkar, með hollri fitu, án smjörs og bara ansi sniðug viðbót við jólabaksturinn. Þær eru einnig mjólkurlausar svo þær henta þeim sem eru með mjólkurofnæmi eða óþol. Kannski ættu þessar kökur bara að heita CafeSigrunur...En svo sem, Sörurnar innihalda nú hrásykur og hlynsíróp svo þetta eru engar englakökur þó þær séu hollari en þær hefðbundnu. Ég ætla að taka loforð af ykkur að bjóða ekki ömmu gömlu og afa upp á þessar Sörur sem „alvöru” því þau munu sennilega fussa um ókomin ár. Við Jóhannes vorum aftur á móti alsæl með Sörurnar okkar. Mér hefði ekki dottið í hug að baka þær nema af því Lísa Hjalt, (sú sem á frönsku súkkulaðikökuna hér á vefnum) skoraði á mig ég þurfti að gera margar mjög misheppnaðar til að uppskriftin virkaði. Athugið að kremið þarf að gera a.m.k. 2-3 klukkustundum áður en þið gerið Sörurnar en einnig má gera það sólarhring áður en uppskriftin er útbúin. Þessar kökur eru tímafrekar og svolítið flóknar í framkvæmd (þess vegna hittast oft margir saman og gera Sörur fyrir jólin!). Það sparar þó undirbúning að kaupa cashewhnetumauk sem og möndlumjöl.

Athugið að nauðsynlegt er að nota matvinnsluvél og hrærivél (eða handhrærivél) fyrir þessa uppskrift. Einnig mala ég hrásykurinn í hreinum kryddmalara svo gott er að eiga slíka græju (einnig er hægt að nota erythritol flórsykurinn eða kaupa hrásykurs-flórsykur).

Til gamans má geta þess að glösin fallegu sem þið sjáið á myndinni eru handgerð og koma af borðum síðasta Shah-ins af Persíu. Þýsk kona að nafni Ullu Becker sem er góðkunningi okkar, á systur sem hafði einhvers konar tengsl við Shah-inn sem grunaði líklega aldrei í sinni tíð, að glösin fallegu myndu enda á Íslandi! 

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur

Sörur

Gerir um 25 stykki

Innihald

Botn:

 • 100 g möndlumjöl 
 • 100 g rapadura hrásykur
 • 2 stórar eggjahvítur
 • Smá klípa salt (Himalaya- eða sjávarsalt)

Krem:

 • 100 g cashewhnetumauk
 • 1 banani
 • 30 g kakó
 • 4 msk hlynsíróp
 • Smá klípa salt (Himalaya- eða sjávarsalt)
 • 2 msk kókosolía

Súkkulaðitoppur:

 • 100 g dökkt súkkulaði með hrásykri

Aðferð

Botn:

 1. Malið rapadura hrásykurinn í hreinum kryddmalara þangað til hann er fínmalaður.
 2. Stífþeytið eggjahvíturnar. Mikilvægt er að skálin sé tandurhrein og án allrar fitu. Einnig er mikilvægt að ekkert af rauðunni fari með ofan í skálina. Notið handþeytara eða hrærivélina til að þeyta eggjahvíturnar. Þær ættu að verða glansandi, hvítar og stífar þannig að toppar fara að myndast. Passið að þeyta ekki of mikið því þá þeytið þið loftið úr þeim.
 3. Sigtið rapadura sykurinn yfir og veltið eggjahvítublöndunni mjög varlega til með sleikju. Gerið það sama með möndlumjölið þangað til allt hefur blandast vel saman en er samt loftkennt þannig að blandan leki ekki til.
 4. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Setjið kúfulla teskeið af blöndunni í einu á bökunarplötuna með 2 sm bili á milli. Bakið við 160°C í um 15-20 mínútur eða þangað til kökurnar eru orðnar gullnar og aðeins harðar á brúnunum. Leyfið kökunum að kólna alveg í ofninum, þær ættu að verða alveg harðar inn að miðju.

Krem og súkkulaðitoppur:

 1. Setjið cashewhnetumaukið í matvinnsluvél og maukið í um 1 mínútu eða þangað til alveg silkimjúkt. Sigtið kakó út í cashewhnetumaukið og bætið salti, hlynsírópi og banana út í. Maukið í nokkrar sekúndur þangað til allt er orðið vel blandað saman. Skafið matvinnsluvélina að innan og bætið kókosolíunni út í. Blandið í um 30 sekúndur eða þangað til kremið er silkimjúkt. Látið kremið í plastbox og leyfið því að stífna í a.m.k. 2-3 klukkustundir.
 2. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði: Hitið vatn í potti (bara botnfylli) á vægum hita. Setjið skál ofan í sem situr á brúnum pottsins og brjótið súkkulaðið ofan í. Fylgist með því og hrærið öðru hvoru þangað til nánast bráðnað, takið þá af hitanum. Gætið þess að súkkulaðið ofhitni ekki og að ekki fari vatnsdropi ofan í súkkulaðiskálina.

Samsetning:

 1. Takið hverja Söru fyrir sig og smyrjið flatari hliðina með þykku lagi af kremi. Leggið á disk þannig að kremhliðin snúi upp.
 2. Dýfið hverri Söru á hvolf (þannig að kremið snúi niður) ofan í brædda súkkulaðið. Setjið á disk og látið kólna í ísskápnum.

Gott að hafa í huga

 • Sörurnar má frysta.
 • Athugið að svona Sörur geymast ekki eins lengi í kæliskápnum og hinar hefðbundnu Sörur með smjör-flórsykurskremi en ættu að geymast vel í tvær vikur eða svo.
 • Nota má cashewhnetumauk (e. cashew butter) í staðinn fyrir cashewhnetur. Cashewhnetumauk fæst í stærri matvöruverslunum. Sama gildir um möndlumjöl.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má carob í stað súkkulaðis og kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
 • Nota má erythritol flórsykurinn í staðinn fyrir rapadura sykurinn en einnig má kaupa hrásykurs-flórsykur.

 

Ummæli um uppskriftina

Hrefna
19. nóv. 2010

sæl Sigrún og til lukku með nýjan og glæsilegan vef!
Ég hef tvær spurningar.

1. passa þarf að möndlurnar verði ekki olíukenndar. Hvenær gerist það? ef maður malar þær of lengi?
2. kökurnar geymast í 2 vikur. Þú meinar væntanlega ófrystar eða hvað?

kv. HRefna

sigrun
19. nóv. 2010

Sæl Hrefna.

Hér eru svörin við spurningunum:

1. Það fer alveg eftir matvinnsluvélinni hvenær þær verða olíukenndar. Ef blaðið er mjög beitt þá gerist það fljótt en ef blaðið er gamalt getur það tekið lengri tíma. Ég get ekki alveg gefið upp nákvæman tíma þó, þú sérð það á áferðinni. Fyrst verða þær grófkornóttar, svo verða þær fínkornóttar (og þá skaltu mala þær bara nokkrar sekúndur í einu og athuga þær svo aftur) en að lokum verða þær eins og marsipan (þykkt, olíukennt mauk) og það viljum við forðast. Þær eiga að vera léttar og fínkornóttar. Það er hægt að kaupa fínmalaðar möndlur í heilsubúðum (rándýrt).

2. Ófrystar já, ég tek alltaf fram ef ég er að meina geymslu í frysti. Hef ekki prófað að frysta þær svo ég veit ekki hvernig þær koma út, hugsa þó að þær séu allt í lagi frystar (en botninn gæti orðið dálítið mjúkur).

Vona að þetta hjálpi

Kv.

Sigrún

Soffía
02. des. 2011

Ó mæ gad!!! Þvílíkar snilldar kökur;D Ég er búin að hlakka svooo lengi til að prufa þessa uppskrift og gerði hana loksins í dag. Ég heyrði bara englasöng og sá stjörnur þegar þær voru tilbúnar. Þær líta alveg ótrúlega vel út og eru rosalega góðar:) Þú ert svakalega klár í uppskriftagerð, ég dáist alveg að þér;D

sigrun
03. des. 2011

Gleður mig að heyra...sérstaklega að þær hafi bragðast vel OG&;litið vel út.... :)

Kristín Sigurðardóttir
26. jan. 2012

Ómægat hvað þær eru fáránlega góðar og líka súkkulaði-og kókós konfektið :) takk fyrir frábæra síðu!1 :)

sigrun
26. jan. 2012

Gaman að heyra Kristín, njóttu vel :)

Sigurbjörg
20. nóv. 2012

Ég gerði þessar í gær og hrikalega eru þær góðar! Það var mikil áthamingja hjá þeim sem smökkuðu. Ég geymi þær í frysti, þær verða mjúkar en ég er vön því að sörur séu þannig og finnst það bara gott :)

sigrun
20. nóv. 2012

Dásamlegt að heyra Sigurbjörg og takk fyrir að deila með okkur :)

Berglind Þráinsdóttir
22. nóv. 2013

Sæl Sigrún, geturðu ímyndað þér að ég geti notað sukrin-sykur í stað hrásykurs og kannski hrátt hunang í stað síróps? Þá myndi ég pottþétt prófa :)
Bestu kveðjur!

sigrun
22. nóv. 2013

Get ekki ímyndað mér annað en að það sé í lagi :) Kremið gæti hugsanlega orðið mýkra svo bættu hunanginu smátt og smátt út í (ekki öllu í einu) og sjáðu hvernig það kemur út. :)

SA
03. des. 2013

Ég gerði þessar tvisvar í fyrra, mátulega lítil uppskrift, vildi eiga eggjarauðurnar í ís. Ég gerði ráð fyrir að þær ættu að fara í frysti og setti þær þar og þær geymdust alveg heillengi og voru mjög góðar, jafnvel bara beint úr frystinum. Hentar líka ófrískum konum af því eggjarauðurnar eru ekki með (ef fólk nennir ekki að kaupa gerilsneyddar).

sigrun
03. des. 2013

Takk fyrir upplýsingarnar :) Gott að heyra að þær hafi bragðast vel!!!

Úlfur
31. mar. 2014

Sæl Sigrún líst svaka vel á þessa uppskrift. En er i smá vandrædum. Ég er vegan. Hvad get ég notad i staðinn fyrir eggjahvítur.gætiru bent mér á sniðiga lausn. :)

sigrun
31. mar. 2014

Sæll Úlfur. Hmmm það er pínu erfitt að gera uppskriftina án eggjahvítanna því þær mynda "loftið" sem þarf til. En ég skil vel að þú viljir prufa vegan útgáfu. Hefurðu prufað eggjalíki úr heilsubúð? Það er  kannski það helsta sem ég myndi ráðleggja þér (hef ekki prufað sjálf)...en annars væri það að prufa að mala hörfræ og setja vatn út á og láta liggja í um 15 mín (myndi prófa 50-75 ml eða svo)...en þori ekki að lofa að virki. Eins væri mögulegt að prufa chia fræ kannski líka?

Úlfur
01. apr. 2014

Takk fyrir svarið. Ég ætla að prufa egg replacer. Mæta vita hvernig tad kemur út. Takk takk
:)

sigrun
02. apr. 2014

Endilega Úlfur, væri frábært að vita!!!