Sinnepssósa

Þessi sinnepssósa er holl og góð og passar með alveg ótrúlegum fjölda af uppskriftum. Hún passar sérstaklega vel með grænmetisborgarum, grilluðum mat, inn í fylltar pönnukökur, í vefjur, ofan á brauð, sem ídýfa með niðurskornu grænmeti o.fl., o.fl.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Sinnepssósa

Fyrir 2-3 sem meðlæti

Innihald

  • 6 msk hreint sinnep (ekki með viðbættum sykri og án aukaefna, litarefna o.s.frv.)
  • 2 tsk sinnepsfræ (enska: mustard seed, brún eða gul eða bæði)
  • 1-2 msk agave síróp
  • 4-6 msk eða meira af 5% sýrðum rjóma (án gelatíns) frá Mjólku
  • 200 ml eða meira af AB-mjólk eða hreinni jógúrt (má sleppa og nota meira af sýrðum rjóma fyrir þykkari sósu)

Aðferð

  1. Hrærið saman sinnepi, agavesírópi, sýrðum rjóma, AB mjólk og sinnepsfræjum.
  2. Smakkið til með agavesírópi.
  3. Kælið.
  4. Sósan geymist í rúmlega viku í ísskápnum.

Gott að hafa í huga

  • Ég hef í hallæri notað skyr í staðinn fyrir ABmjólk/jógúrt og blandað smávegis af mjólk saman við. Það tókst bara vel.
  • Það má saxa ferska steinselju (eða nota þurrkaða) út í sósuna.
  • Ef þið hafið mjólkuróþol getið þið notað sojajógúrt (sósan verður reyndar aðeins þynnri).

Ummæli um uppskriftina

Berglind Stefánsdóttir
09. maí. 2013

Hæ. Vil bara byrja á að segja að ég elska síðuna þína og þreytist ekki á að mæla með henni :)
Þegar þú talar um hreint sinnep ertu þá að meina eins og t.d. dijon sinnep?

sigrun
09. maí. 2013

Hæ og takk fyrir :)

Hvaða sinnep sem er svo lengi sem það er ekki sykur/efnabætt með einhverjum E-efnum. Það er til gott, franskt sinnep í flestum búðum (heitir sweet mustard) eða álíka og er alveg hreint. Dijon sinnep virkar líka ef það er hreint :)