Sashimi túnfiskur með miso sósu

Þetta er voða gott salat, sérstaklega sem forréttur fyrir sushimatarboð. Nauðsynlegt er að nota besta mögulega túnfisk sem hægt er að fá. Best er að kaupa túnfiskinn til dæmis í Fylgifiskum á Suðurlandsbraut. Uppskriftina fann ég á einhverjum snepli einhvers staðar í bresku blaði.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta

Sashimi túnfiskur með miso sósu

Fyrir 2-3 sem forréttur

Innihald

Marinering fyrir túnfiskinn

 • 350 g sashimi túnfiskur (sashimi þýðir bara að hægt er að nota túnfiskinn í sushi og er af bestu gæðum)
 • Blandið saman 2 msk hrísgrjónaedik (enska: rice vinegar), 1 msk agavesírópi og 1 tsk salti (Himalaya eða sjávarsalt)

Miso sósa

 • 2 msk hvítt miso (mauk sem er hægt að kaupa í túpu í austurlenskum verslunum og heilsubúðum en líka er hægt að kaupa miso súpubréf sem fæst í heilsubúðum og nota í staðinn, er samt ekki eins gott)
 • 1 msk mirin (það er hálfgert síróp, með sykri svo ég nota agavesíróp í staðinn).
 • 1 msk sake (sake er hrísgrjónavín, má sleppa)
 • 1 msk agavesíróp
 • 2 msk hrísgrjónaedik
 • 1 tsk tamarisósa
 • 1 tsk japanskt sinnep (ég notaði Dijon og það var líka gott)
 • 4 vorlaukar (þessir löngu og mjóu), saxaðir smátt (notið græna hlutann eingöngu)
 • 1 msk sesamolía (má sleppa)

Aðferð

 1. Skerið túnfiskinn í 2cm bita eða skerið í þunnar sneiðar. Setjið í skál.
 2. Blandið saman hrísgrjónaedikinu, agavesírópinu og saltinu og hellið yfir túnfiskinn.
 3. Látið túnfiskinn liggja í um 15 mínútur í marineringunni og breiðið yfir skálina með plasti.
 4. Hellið marineringunni af túnfiskinum og þerrið hann laust með eldhúsþurrku.
 5. Saxið vorlaukinn smátt (grænu blöðin eingöngu)
 6. Blandið saman öllu sem á að fara í miso sósuna; miso, agavesíróp, hrísgrjónaedik, tamarisósa, sinnep, sesamolía og vorlaukar.
 7. Setjið túnfiskinn í hreina skál og hellið Miso sósunni (eða miso duftinu) yfir.
 8. Hrærið vel saman við túnfiskinn og berið fram í einni skál eða mörgum litlum skálum ásamt prjónum.

Gott að hafa í huga

 • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
 • Nota má ferskan lax í staðinn fyrir túnfisk.
 • Gott er að gera túnfiskréttinn að morgni og bera fram að kvöldi, þannig nær fiskurinn að draga í sig bragðið af sósunni.