Salsa

Þetta er uppskrift að hefðbundnu salsa sem oft er notað í mexikanskan mat en passar einstaklega vel sem meðlæti með öðrum mat líka, ekki síst grillmat sem og inn í vefjur. Það er stútfullt af C vítamínum og andoxunarefnum og er eitt hollasta meðlæti sem til er því það er afar fitulítið.


Salsa sem er eiginlega salat úr tómötum

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Salsa

Fyrir 3-4 sem meðlæti

Innihald

  • 1 hvítlauksgeiri, saxaður smátt eða maukaður
  • 1 rauður chili pipar, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 1 vorlaukur (þessir löngu og mjóu laukar), sneiddur í mjóar sneiðar.
  • 1 tsk agave síróp
  • Safi úr 1 límónu (enska: lime)
  • 5 vel þroskaðir tómatar, fræhreinsaðir og saxaðir mjög smátt
  • 1 tsk ólífuolía
  • 0,25-0,5 tsk tabascosósa (farið sparlega með hana, hún getur verið mjög sterk). Ef þið eigið tabasco ekki til má nota sterka piparsósu (enska: hot pepper sauce)
  • Ein lítil lúka ferskt coriander, saxað (aðeins laufin notuð).

Aðferð

  1. Afhýðið og merjið eða saxið hvítlaukinn.
  2. Fræhreinsið chili piparinn og saxið smátt.
  3. Sneiðið vorlaukinn (bæði græna og ljósa hlutann) í mjóar sneiðar.
  4. Skerið tómatana í hálft og skafið innan úr þeim. Saxið tómatana mjög smátt.
  5. Saxið corianderlaufin smátt.
  6. Blandið saman í skál og bætið agavesírópi, ólífuolíu, límónusafa og tabascosósu saman við.
  7. Geymið í kæli þangað til á að nota salsað. Það er mjög gott að láta það marinerast í klukkutíma eða svo því það dregur betur fram bragðið af öllu innihaldinu.

Gott að hafa í huga

  • Sumum finnst gott að saxa græna papriku saman við.
  • Einnig má nota grænan chili pipar í staðinn fyrir rauðan.
  • Sleppa má corianderlaufunum ef ykkur finnst þau ekki góð.