Rauðrófusalat - tvær útgáfur (krydduð og sæt)

Flestir Íslendingar þekkja rauðrófusalat sem gjarnan er borið fram á jólunum eða notað ofan á rúgbrauð ásamt t.d. síld. Þessi útgáfa er töluvert hollari (oft er notaður rjómi, majones eða feitur, sýrður rjómi). Liturinn á salatinu er ævintýri líkastur en liturinn segir okkur m.a. að rauðrófur eru afar hollar og pakkfullar af andoxunarefnum. Ég nota hvert tækifæri sem ég get til að matreiða úr ferskum rófum því þær eru svo, svo fallegar á litinn. Athugið að venjulegar, niðursoðnar rauðrófur innihalda oft hvítan sykur svo ef þið komist ekki í ferskar, athugið hvort þið finnið ekki niðursoðnar rauðrófur í heilsubúð. Í sumum útgáfum er rauðrófusalat gert mjög sætt (þ.e. eplabitum og sykri o.fl. er bætt við) og það hentar með sumum mat. Ég set báðar útgáfur fyrir ykkur hérna inn til að þið getið prófað sjálf.


Rauðrófusalat - fallega vínrautt

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Rauðrófusalat - tvær útgáfur (krydduð og sæt)

Fyrir 3-4 sem meðlæti (hvort salat)

Innihald

Kryddað rauðrófusalat

  • 400 g rauðrófa
  • 200 ml jógúrt
  • 0.5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 2-3 msk eplasafi
  • 1 tsk sítrónusafi
  • 1 hvítlauksgeiri, marinn (einnig má nota hvítlaukssalt t.d. frá Pottagöldrum og sleppa þá saltinu)
  • Smá klípa paprikuduft
  • Krydd eftir smekk (sumum finnst dill og timian passa við en mér finnst coriander passa vel við líka)


Sætt rauðrófusalat

  • 400 g rauðrófa
  • 200 ml jógúrt
  • 0.25 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 2-3 msk eplasafi
  • 1 msk agavesíróp
  • 1 tsk sítrónusafi

Aðferð

Fyrir krydduða rauðrófusalatið:

  1. Setjið grisju eða hreina tusku í sigti og hellið jógúrtinni ofan í.
  2. Látið jógúrtina sitja í sigtinu í a.m.k. klukkutíma (ekki verra að hún sitji yfir nótt).
  3. Skrúbbið rauðrófuna létt undir rennandi vatni.
  4. Pakkið rauðrófunni inn í álpappír og setjið í eldfast mót.
  5. Bakið rauðrófuna við 200°C í 1,5 klukkustund.
  6. Þegar rauðrófan er orðin bökuð (ætti að vera auðvelt að stinga inn í hana miðja), kælið hana þá alveg, afhýðið og skerið í bita (stærð fer eftir smekk). Gott er að nota hanska þar sem rauðrófan litar mjög mikið. Gætið þess að hún komi ekki nálægt ljósu plasti eða tré (aðeins gleri).
  7. Blandið saman jógúrt, eplasafa, sítrónusafa, salti, paprikudufti, hvítlauk og kryddi (eða hvítlaukssalti).
  8. Blandið jógúrtblöndunni saman við rauðrófurnar, hrærið vel og látið standa í a.m.k. 30 mínútur. Eftir því sem salatið stendur lengur, verður liturinn dýpri.

Fyrir sæta rauðrófusalatið:

  1. Fylgið aðferðinni hér að ofan alveg fram í skref 8 (þangað til þið eruð búin að baka rauðrófuna og skera hana í bita).
  2. Afhýðið eplið og skerið í aðeins minni bita en rauðrófurnar. Setjið eplabitana í skál með rauðrófunum.
  3. Blandið saman jógúrt, eplasafa, agavesírópi, sítrónusafa og salti.
  4. Blandið jógúrtblöndunni saman við rauðrófurnar, hrærið vel og látið standa í a.m.k. 30 mínútur. Eftir því sem salatið stendur lengur, verður liturinn dýpri.

Gott að hafa í huga

  • Eitt tilbrigði við salatið er að setja út í það appelsínu- og sítrónubörk (af einni appelsínu og einni sítrónu).
  • Nota má gríska jógúrt en hún inniheldur meiri fitu en venjuleg jógúrt.
  • Nota má sýrðan rjóma (5% án gelatíns, frá Mjólku) í staðinn fyrir jógúrt.
  • Ef þið hafið mjólkuróþol (eða ef þið eruð jurtaætur), má nota sojajógúrt í staðinn fyrir venjulega jógúrt.