Raita með gúrku og myntu (jógúrtsósa)

Raita (jógúrtsósa) er algerlega ómissandi í indverskri matargerð þar sem hún „jafnar út" bragð. Í indverskri matargerð eru jafnan bornir fram margir réttir í einu og því er nauðsynlegt að bjóða upp á „hlutlaust" bragð og það gerir maður með Raita. Svipað og engiferið hlutleysir bragð á milli sushibita í japanskri matargerð. Einnig er sósan áhrifaríkt „slökkvitæki" þegar maður er búinn að borða of mikið af sterkum mat því Raita kælir munninn vel að innan, sérstaklega ef hún inniheldur myntulauf. Það eru til margar gerðir af Raita og þetta er ein sérlega kælandi útgáfa. Mér finnst mynta í mat alltaf eins og að borða tyggjó eða hálstöflur en þetta er með því fáa (fyrir utan myntute) sem mér finnst í lagi með myntu.

Raita passar vel með grilluðum mat, niðurskornu grænmeti, buffum/borgurum, bökuðum kartöflum, með salötum og mörgu fleira.

Athugið að best er að gera sósuna með a.m.k. 3ja tíma fyrirvara (ekki algerlega nauðsynlegt) því bragðið þarf að fá að „taka sig".

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Raita með gúrku og myntu (jógúrtsósa)

Fyrir 3-4 sem meðlæti

Innihald

  • 150 g gúrka 
  • 0,5 tsk cumin fræ (ekki kúmen)
  • 0,5 tsk brún sinnepsfræ (enska: mustard seeds)
  • 0,25 tsk cumin, malað (ekki kúmen)
  • 0,25  tsk cayennepipar eða chili pipar
  • 250 ml hrein jógúrt (einnig má nota sojajógúrt)
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1 hvítlauksgeiri, marinn eða saxaður mjög smátt
  • 1 msk fersk myntulafu, söxuð

Aðferð

  1. Flysjið gúrkuna, skerið í helming langsum og skafið miðjuna alveg úr. Saxið gúrkuna frekar smátt.
  2. Þurristið cuminfræin og sinnepsfræin á heitri pönnu (án olíu) í 2-3 mínútur.
  3. Setjið jógúrtið í skál og bætið cayennpiparnum, möluðu cumin,  gúrkunni, hvítlauknum og sítrónusafanum saman við. Hrærið vel.
  4. Setjið plastfilmu yfir skálina og geymið í ísskápnum í a.m.k. 2 klukkustundir áður en sósan er borin er fram.
  5. Rétt áður en sósan er borin fram, bætið þá söxuðum myntulaufunum saman við.

Gott að hafa í huga

  • Það má gjarnan útbúa raita gúrkusósu deginum áður en hún er borin fram (blandið öllu saman nema myntulaufunum og setjið þau út í rétt áður en sósan er borin fram).
  • Ef þið hafið mjólkuróþol má nota sojajógúrt í staðinn fyrir jógúrtina.
  • Malað cumin, cuminfræ og sinnepsfræ fást oft í stærri matvöruverslunum. Einnig fást þessi krydd yfirleitt í verslunum sem sérhæfa sig í austurlenskri matvöru.