Rabarbarasulta

Mér hefur eiginlega alltaf þótt rabarbarasulta vond. Þangað til ég gerði mína eigin (svona er ég nú óþolandi he he). Elva vinkona mín kom einn daginn færandi hendi með 500 kg af rabarbara úr eigin ræktun (eða svona 5 kg) og ég varð að búa til eitthvað úr honum. Ég útbjó þessa fínu rabarbarasultu og er núna búin að sjóða ofan í krukkur til vetrarins svona eins og gömlu konurnar í sveitinni. Vissuð þið að rabarbari eru skyldur bókhveiti. Rabarbari er líka stundum kallaður „bökuplantan" því fyrst og fremst er hann notaður í bökur (a.m.k. erlendis því hér á Íslandi er hann meira notaður í sultur og ætti því kannski að endurnefnast „sultuplantan"). Rabarbari inniheldur A og C vítamín og er mjög trefjaríkur. Rabarbari á að minnka hættu á krabbameini en hann hefur verið notaður í lækningaskyni í Kína síðan í eldgamla daga t.d. við bólgum í liðum, ofnæmi og til að minnka háan blóðþrýsting. Rabarbaralauf eru sögð baneitruð (innihalda efnið oxelate) og ætti ekki að borða þau.


Rabarbarasulta í hollari útgáfu

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Rabarbarasulta

Gerir um 400 ml

Innihald

  • 350 g rabarbari, þveginn og saxaður gróft
  • 100 g döðlur, saxaðar gróft
  • 60 ml hlynsíróp
  • 0,5 tsk kanill
  • 1 tsk sítrónusafi

Aðferð

  1. Skolið rabarbarann, skeril laufin frá og hendið þeim og saxið stönglana gróft.
  2. Setjið rabarbarann í stóran pott.
  3. Saxið döðlurnar gróft og setjið í pottinn.
  4. Bætið hlynsírópinu, kanilnum og sítrónusafanum saman við. Látið sjóða í 15-20 mínútur.
  5. Gott er að hræra kröftuglega í sultunni með gaffli af og til.
  6. Setjið í sótthreinsaðar krukkur (sjóðið krukkur og lok í 10 mínútur).

Gott að hafa í huga

  • Sultan geymist í rúman mánuð í ísskáp í sótthreinsuðum krukkum.
  • Sultuna má frysta og geymist hún þannig í marga mánuði. Gott er að frysta í smáum skömmtum.
  • Gott er að hita sultuna með svolitlu af fersku engiferi og 100 ml eplasafa og borða sem graut.

Ummæli um uppskriftina

Jóna Pálsdóttir
09. ágú. 2011

Sammála umsögninni, nema mér hefur reyndar alltaf þótt rabarbarasulta góð. Þessi er hins vegar eitthvað allt annað og miklu meira.Frábær ein og sér, í hjónabandssælu og með kjöti.
Kærar þakkir fyrir uppskriftina.

sigrun
09. ágú. 2011

Svo gaman að heyra Jóna og takk fyrir að deila með okkur :)

IngibjörgEyjalín
26. jan. 2012

Líka mjög gott að setja gráfikjur samanvið og einnig tómsts

Sigurlaug
19. jún. 2012

Hæ Sigrún og takk fyrir flotta síðu og frábærar uppskriftir.
Ég nota líka rifin engifer þegar ég sýð rabbabarann ;)

sigrun
19. jún. 2012

Hljómar vel Sigurlaug....., ég nota engiferinn einmitt í rabarbaragrautinn :)

Tóta
19. jún. 2012

Þessi rabbabarasulta er bara sjúklega góð. Nammi namm.

sigrun
20. jún. 2012

Glöð að heyra það Tóta og njóttu vel :)

mammadreki
16. sep. 2012

Algjör snilld, eina rabarbarasultan sem ég borða :)

sigrun
16. sep. 2012

Æði :) Njóttu vel :)

Anna Eyjolfsdottir
30. maí. 2013

Hæ, á ekki að vera neinn vökvi í þessari uppskrift?

sigrun
30. maí. 2013

Það þarf engan aukavökva, bara þann sem er tilgreindur í uppskriftinni :)

Flemming Jessen
30. ágú. 2017

Prófaði uppskriftina og ég verð að segja - frábær -

sigrun
30. ágú. 2017

Gaman að heyra og takk fyrir að deila með okkur :)