Rabarbaramuffins

Ég var að fikta aðeins í eldhúsinu og mundi eftir rabarbarasultu sem ég átti í ísskápnum. Mér fannst upplagt að prófa sultuna í muffinsa og það tókst svona prýðilega. Ef þið viljið nota heilan rabarbara í staðinn skiptið þið út sultunni fyrir 200 g af söxuðum rabarbara og 60 g rapadura hrásykur (eða annan hrásykur) en haldið öllu öðru innihaldi óbreyttu.


Hollir og góðir síðsumars muffinsar

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án hneta

Rabarbaramuffins

Gerir 10-12 muffinsa

Innihald

  • 180 g spelti
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1 tsk kanill
  • 250 g rabarbarasulta
  • 60 ml agavesíróp
  • 2 msk kókosolía
  • 1 egg
  • 1 eggjahvíta
  • 150 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)

Aðferð

  1. Sigtið saman í stóra skál: spelti, vínsteinslyftiduft og kanil. Hrærið vel.
  2. Í annarri skál skuluð þið hræra saman: eggi, eggjahvítu, agavesírópi og kókosolíu. Hrærið aðeins og bætið rabarbarasultunni saman við. Hrærið vel og hellið út í stóru skálina.
  3. Veltið deiginu til án þess að hræra. Mikilvægt er að hræra ekki of mikið heldur rétt svo þannig að deigið blandist saman. Hellið mjólkinni út í (50 ml í einu). Það er ekki víst að þið þurfið alla mjólkina. Deigið á að vera það blautt að það leki af sleif í stórum kekkjum og ekki t.d. það þurrt að hægt sé að hnoða það.
  4. Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
  5. Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
  6. Bakið við 190°C í um 25-30 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.
  • Gott er að setja appelsínubörk og meiri kanil út í deigið fyrir kryddaðra bragð.
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.