Rabarbaragrautur

Það er hægt að gera margar útgáfur af rabarbaragraut og til dæmis er gaman að sjóða bláber með og ég hef líka prófað appelsínubörk. Það tíðkaðist hér áður fyrr að setja rauðan matarlit út í rabarbaragraut… en það myndi mér aldrei detta til hugar og þess vegna er grauturinn minn svolítið brúnn. Það má sjóða nokkur jarðarber með grautnum til að fá hann aðeins rauðari. Rabarbari hefur verið notaður í lækningarskyni í Kína síðan sautján hundruð og súrkál (og meira að segja fyrr)… enda mjög hollur. Rabarbari á að minnka hættu á að fá krabbamein en einnig hefur hann verið notaður t.d. við bólgum í liðum, ofnæmum og til að lækka háan blóðþrýsting. Rabarbari inniheldur A og C vítamín og er mjög trefjaríkur.


Sígildur rabarbaragrautur nema svolítið í hollari kantinum

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Rabarbaragrautur

Fyrir 2-3

Innihald

  • 350 g rabarbari, þveginn og saxaður gróft
  • 100 g döðlur, saxaðar gróft
  • 1 sm bútur engifer, afhýtt og saxað mjög smátt
  • 4-5 jarðarber, söxuð (má sleppa)
  • 65 ml hlynsíróp
  • 0,5 tsk kanill
  • 0,25 tsk negull (enska: cloves)

Aðferð

  1. Saxið döðlur og jarðarber gróft.
  2. Skolið rabarbarann og saxið gróft.
  3. Afhýðið engiferið og saxið mjög smátt.
  4. Setjið döðlur, jarðarber, rabarbara og engifer í pott ásamt hlynsírópi, kanil og negul. 
  5. Hleypið suðunni upp og látið grautinn malla í um 20 mínútur. Hrærið í pottinum nokkrum sinnum með gaffli, mjög kröftuglega.
  6. Blandið með töfrasprota ef þið viljið mjög mjúka áferð. Mér finnst gott að hafa hana svolítið grófa.
  7. Berið grautinn fram heitan með meiri kanil og sojamjólk (einnig má nota undanrennu, möndlumjólk, haframjólk eða rísmjólk). Sumum finnst gott að setja svolítið af þeyttum rjóma út á grautinn.

Gott að hafa í huga

  • Grautinn má nota sem sultu.
  • Grautinn er gott að frysta í smáum skömmtum sem má svo hita upp síðar.
  • Nota má stevia dropa í staðinn fyrir hlynsírópið, smakkið til eftir smekk en um 5-7 dropar ættu að duga.

Ummæli um uppskriftina

ingastef
10. júl. 2011

Hvað mikið af vatni?

sigrun
10. júl. 2011

Það er ekkert vatn í uppskriftinni...

Guðrún S
22. jún. 2014

Ég átti engin jarðarber og ekki síróp en notaði 5 dropa af steviu í staðinn. Skemmtileg nýjung að nota kanil. Grauturinn mjög góður. Takk.

sigrun
22. jún. 2014

Gaman að heyra :)