Rabarbaracrumble (rabarbaramylsnubaka)

Ég á algjörlega tröllvaxinn rabarbara. Svo tröllvaxinn að stönglarnir ná rúmum metra á hæð (mínus blöðin sem eru eins og regnhlífar að stærð). Hann er þeim eiginleikum gæddur að þrátt fyrir stærðina er hann ekki trénaður heldur eru sverustu stilkarnir jafn safaríkir og stökkir og þeir mjóustu og nýjustu. Ég sit sem sagt á rabarbarauppsprettu og ég veit ekki hvað ég hef gert til að verðskulda þennan mikla vöxt því hann fær að vaxa óáreittur utan að ég tek blómstrandi blómið af en það er talið hefta vöxt stönglanna. Svo fær hann kaffikorg og pínulítinn hrossaskít á haustin. Hann virðist alsæll með þetta. Þetta rabarbaracrumble er sáraeinfalt og eitthvað sem ég hef útbúið síðustu árin en aldrei birt uppskrift af fyrr en nú. Rabarbarinn minn á eiginlega skilið að ég geri uppskrift honum til heiðurs!

Uppskriftin sjálf er vegan, eggjalaus og mjólkurlaus og auðvelt er að sleppa hnetunum ef þið hafið ofnæmi. Hún verður minna crumbly fyrir vikið og áferðin ekki eins skemmtileg en það væri t.d. hægt að bæta bókhveiti (heilu) ofan á í staðinn, fyrir krönsjí áferð. 

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án glúteins
  • Án hneta

Rabarbaracrumble (rabarbaramylsnubaka)

Eina böku

Innihald

Fyllingin

  • 500 g rabarbari (eftir snyrtingu)
  • 80 g rapadura hrásykur
  • 10 dropar stevía án bragðefna (eða 10 g til viðbótar af hrásykri)
  • 1 msk appelsínusafi

Toppurinn (mylsnan)

  • 140 g spelti
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 80 g kókosolía (mjúk, ekki fljótandi)
  • 40 g rapadura hrásykur
  • 70 g valhnetur eða pecanhnetur
  • ¼ tsk múskat (má sleppa)
  • ½ tsk salt (Himalaya- eða sjávarsalt)

Aðferð

  1. Skerið endana af rabarbarastönglunum og skerið stönglana í um 5 cm langa búta (þið þurfið 500 g). Setjið í stóran pott ásamt hrásykrinum, stevía dropum og appelsínusafa. Látið krauma við vægan hita í um 20 mínútur, ekki hræra. Hellið því næst varlega í eldfast mót (um 22 cm í þvermál). Ekki hafa áhyggjur af því þó að svolítill safi verði í forminu, hann gufar aðeins upp við baksturinn.
  2. Til að útbúa toppinn skuluð þið setja spelti í skál og bæta kókosolíunni í bitum út í og nudda aðeins saman þannig að úr verði grófkekkjótt deig (eins og mulningur). Saxið valhneturnar og bætið út í skálina ásamt hrásykri, múskati og salti. Klípið deigið svolítið saman og dreifið vel yfir rabarbarann. 
  3. Hitið ofninn í 180°C og bakið í um 30 mínútur eða þangað til toppurinn er orðinn gullbrúnn. 
  4. Berið bökuna fram heita e.t.v. með heimatilbúnum vanilluís eða þeyttum rjóma.

Gott að hafa í huga

  • Ef kókosolían er of hörð (köld) má velgja hana aðeins í volgu vatnsbaði (hafið þá olíuna í krukkunni með lokið á). Ef hún er fljótandi má stinga henni í kæliskáp í einhverjar mínútur.
  • Mjög gott er að nota epli og/eða jarðarber með rabarbaranum. Notið 100 g af eplum og/eða 100 g af jarðarberjum á móti rabarbaranum. 
  • Ef þið ætlið að frysta bökuna er gott að leyfa henni að standa í um hálfan sólarhring svo að umfram vökvinn verði sem minnstur áður en bakan fer í frystinn. Ég frysti yfirleitt í eldfasta forminu og hita svo varlega upp (svo formið springi ekki). 
  • Auðvelt er að gera uppkskriftina glútenlausa en þá notið þið glútenlausa mjölblöndu í staðinn fyrir spelti. 
  • Uppskriftin inniheldur múskat sem er fræ en ef þið hafið ofnæmi fyrir múskati má sleppa því.