Rabarbara- og jarðarberjaís

Elva vinkona mín gaukar gjarnan að mér rabarbara yfir sumartímann. Það er alltaf gaman að fá rabarbarasendingu því þá er eiginlega vertíð í eldhúsinu mínu. Ég fer í rabarbaraham og geri allt með rabarbara. Það er líka allt í lagi því hann er svo hollur og góður. Þessi ís er einmitt afar hollur því hann inniheldur ekki neina mettaða fitu og engar mjólkurvörur. Ísinn inniheldur einómettaðar fitusýrur úr cashewhnetunum og rababarinn er líka afskaplega hollur, inniheldur m.a. A og C vítamín og er mjög trefjaríkur. Rabarbari á að minnka hættu á myndun krabbameinsfruma og á að vera góður við bólgum í liðum, ofnæmum og til að lækka háan blóðþrýsting. Jarðarber eru líka ofurholl, innihalda alveg heilan helling af C vítamíni (100 grömm innihalda ráðlagðan dagsskamt). Þau innihalda líka kröftug andoxunarefni og geta því einnig spornað gegn myndun krabbameinsfruma eins og rabarbarinn. Einnig hafa jarðarber þótt vera góð til að viðhalda heilbrigðum augum og góðri sjón sem og eiga þau að vera vörn við gigt. Athugið að börn geta verið með ofnæmi fyrir jarðarberjasteinum svo ekki er ráðlagt að gefa mjög ungum börnum jarðarber (nema þið séuð viss um að þau hafi ekki ofnæmi). Þessi ís er fallega bleikur á litinn og það er gaman að bera hann fram á sumarkvöldi eftir góðan mat. Hægt er að gera þennan ís án ísvélar. Athugið að leggja þarf cashewhneturnar í bleyti í sólarhring áður en ísinn er búinn til svo gefið ykkur góðan tíma.

Nauðsynlegt er að nota matvinnsluvél til að útbúa uppskriftina.


Dásamlegur ís, fullkominn yfir sumartímann

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan
  • Hráfæði

Rabarbara- og jarðarberjaís

Gerir rúmlega 500 ml af ís

Innihald

  • 100 g cashewhnetur, sem búnar eru að liggja í bleyti í sólarhring
  • 150 g rabarbari
  • 150 g jarðarber (fersk eða frosin)
  • 100 ml vatn
  • 100 ml hreint hlynsíróp

Aðferð

  1. Leggið cashewhneturnar í bleyti í sólarhring.
  2. Hellið vatninu af cashewhnetunum og setjið hneturnar í matvinnsluvél. Blandið í 2 mínútur eða þangað til hneturnar eru orðnar mjög vel maukaðar. Gott er að skafa hliðar matvinnsluvélarinnar nokkrum sinnum og blanda áfram. Afar mikilvægt er að mauka hneturnar eins vel og hægt er.
  3. Hellið 100 ml af vatni út í ásamt helmingnum af hlynsírópinu (50 ml). Blandið í eina mínútu eða lengur eða þangað til blandan er eins og þykk mjólk að áferð.
  4. Setjið í skál og geymið í ísskápnum í klukkutíma.
  5. Skolið rabarbarann, skerið í grófar sneiðar og setjið í matvinnsluvélina.
  6. Bætið jarðarberjunum út í ásamt afganginum af hlynsírópinu
  7. Blandið á fullum krafti í eina mínútu eða þangað til allt er vel maukað. Bætið meira hlynsírópi út í ef þið viljið sætari ís.
  8. Setjið í skál og geymið í ísskápnum í klukkutíma.
  9. Ef þið eigið ísvél, setjið þá cashewblönduna í ísvélina í um 30 mínútur. Bætið þá jarðarberjablöndunni saman við og látið vélina ganga í nokkrar sekúndur (til að fá fallegt mynstur í ísinn).
  10. Fyrir þá sem eiga ekki ísvél, setjið þá cashewblönduna í stórt plastbox og hrærið í blöndunni á um klukkutíma fresti í nokkra klukkutíma eða þangað til erfitt er orðið að hræra meira. Þegar cashewblandan er nánast alveg frosin, bætið þá jarðarberjablöndunni út í og hrærið nokkrum sinnum.
  11. Setjið í frystinn og frystið í nokkra klukkutíma eða lengur.
  12. Látið ísinn þiðna í ísskáp í um 30-40 mínútur áður en hann er borinn fram. Þannig verður auðveldara að skafa úr boxinu.

Gott að hafa í huga

  • Það er frábært að gera rabarbara- og jarðarberjaíshristing (sjeik) úr þessum ís.
  • Nota má rifsber í staðinn fyrir jarðarber en þá þarf meira af hlynsírópi.
  • Nota má macadamiahnetur í staðinn fyrir cashewhnetur.
  • Nota má hreint agavesíróp í staðinn fyrir hlynsírópið
  • Ef þið eigið cashewhnetumauk (e. cashew butter) getið þið notað það (sama magn) í staðinn fyrir að mauka hneturnar sjálf.