Rabarbara- og jarðarberjadrykkur

Elva vinkona mín lagði til að ég prófaði þennan drykk en hann er úr bókinni Innocent Smoothie Recipe Book sem ég held mikið upp á. Við eigum báðar bókina en ég hafði aldrei prófað drykkinn. Þegar Elva gaf mér svo fullt af rabarbara gat ég ekki annað en prófað og sá ekki eftir því enda er drykkurinn ferskur og bragðgóður. Hann er líka meinhollur, fullur af A og C vítamínum, trefjum, andoxunarefnum o.fl. Jarðaber eru einnig svo góð fyrir heilsu augnanna og þau eiga einnig að hjálpa til við að sporna gegn gigt. Ég útbjó uppskriftina nánast alveg eftir þeirri upprunalegu en notaði agavesíróp í stað hunangs (því ég átti ekki hunang). Uppskriftin gaf einnig upp eplasafa úr safapressu en ég notaði eplasafa úr heilsubúð í staðinn.

Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa þennan drykk.
 

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Rabarbara- og jarðarberjadrykkur

Fyrir 2

Innihald

 • 1 stilkur rabarbari, þveginn og saxaður
 • 6 jarðarber (frosin eða fersk), þvegin og snyrt
 • 4 msk sojajógúrt (einnig má nota jógúrt/AB mjólk)
 • 1 tsk agavesíróp (eða acacia hunang)
 • 125 ml hreinn eplasafi (eða 1 epli pressað í safapressu)

Aðferð

 1. Þvoið og snyrtið rabarbarann og saxið gróft.
 2. Þvoið og snyrtið jarðarberin.
 3. Ef þið notið safapressu, setjið eplið þá í gegnum hana og setið svo eplasafann í pott. Ef þið notið ekki safapressu hellið þið eplasafanum bara beint í pottinn. Bætið rabarbaranum saman við og sjóðið í um 10 mínútur.
 4. Kælið vel.
 5. Setjið allt úr pottinum í blandara ásamt jarðarberjum, sojajógúrti og agavesírópi. Blandið á hæstu stillingu í um 30 sekúndur.
 6. Setjið í tvö glös og geymið í ísskáp í um 30 mínútur eða þangað til drykkurinn verður kaldur.
 7. Ef þið hafið ekki tíma til að bíða eftir því að drykkurinn kólni setjið þá ísmola í blandarann áður en þið setjið drykkinn í glös. Blandið í nokkrar sekúndur.

Gott að hafa í huga

 • Nota má appelsínusafa á móti eplasafanum.
   

Ummæli um uppskriftina

Rúna Magga
07. júl. 2013

Sæl Sigrún,

það vantar mælieininguna á agave sírópið hjá þér :) er þetta tsk, msk eða...?

annars lítur þetta mjög girnilega út:)

með kveðju,
Rúna Magga

sigrun
07. júl. 2013

Ahhh takk búin að lagfæra, takk. Það er sem sagt 1 tsk agave en má sleppa :)