Próteinbiti með carob
13. júní, 2006
Þessir bitar eru hið fullkomna nesti í bíltúrinn, gönguna eða vinnuna. Þeir eru sætir, fullir af próteinum og kalki, andoxunarefnum og hollri fitu. Það má gera úr blöndunni stangir, stórar kúlur, kubba, litlar konfektkúlur eða hjörtu, allt eftir smekk. Það er um að gera að búa til helling í einu og geyma bitana innpakkaða í plasti í ísskápnum. Þeir geymast vel í 2-3 vikur. Einnig má frysta bitana í nokkra mánuði.
Athugið að nauðsynlegt er að nota matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift.
Orku- og próteinbitar, voða hollir og góðir
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
- Hráfæði
Próteinbiti með carob
Gerir um 15 bita
Innihald
- 120 g cashewhnetur
- 15 g möndluflögur
- 15 g kókosmjöl
- 250 g gráfíkjur, snúið litla stubbinn á endanum af, saxið gróft
- 80 g döðlur, saxið gróft
- 2-4 msk hreinn appelsínusafi (meira ef þarf)
- 1-2 msk agavesíróp eða hreint hlynsíróp (enska: maple syrup)
- 3 msk carob eða kakó
Aðferð
- Setjið möndlur, cashewhnetur og kókosmjöl í matvinnsluvélina. Blandið í um 30 sekúndur eða þangað til mjög fínt saxað.
- Bætið carobi út í og blandið í 5 sekúndur. Setjið í stóra skál.
- Saxið döðlur og gráfíkjur gróft og setjið í matvinnsluvélina. Blandið í um 1 mínútu eða þangað til mjög smátt saxað. Bætið appelsínusafanum út í og blandið áfram í um 1 mínútu eða þangað til vel maukað. Bætið meira við af appelsínusafanum ef illa gengur að blanda ávextina. Setjið í stóru skálina. Áferðin á blöndunni á að vera nokkuð þétt, alls ekki blaut en á samt að festast vel saman ef þið klípið blönduna á milli fingranna.
- Hrærið vel í blöndunni og hnoðið vel saman, jafnvel í hrærivél með deigkrók.
- Gott er að láta blönduna bíða aðeins í kæli, betra er að móta bitana þannig.
- Mótið stórar kúlur um 35-40 g að þyngd og fletjið svo út þannig að þær verði um 1 sm að þykkt.
- Pakkið hverjum bita inn í plastfilmu og geymið í ísskáp.
- Ef þið viljið auka við próteinið í bitunum má setja próteinkrem ofan á þá.
Gott að hafa í huga
- Setja má appelsínudropa/möndludropa út í blönduna.
- Hægt er að nota blönduna sem konfektmassa og móta kúlur og velta upp úr kókosmjöli.
- Nota má blönduna sem kökubotn.
- Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
- Nota má próteinduft (t.d. Solgar) í bitana en athugið þá að gefa ungum börnum ekki bitana.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024