Próteinbitar

Þessir bitar eru eingöngu hugsaðir fyrir þá sem eru að bæta á sig vöðvum eða eru í líkamsrækt og eru ekki hentugir fyrir t.d. börn. Þetta eru afar sniðugir próteinbitar með hnetum og hollri fitu, flóknum kolvetnum og vítamínum ásamt próteindufti. Þessir próteinbitar eru mun hollari og náttúrulegri en efnahernaðurinn sem maður getur keypt út úr búð (próteinstangirnar). Hafið þið lesið utan á umbúðir slíkra bita? Uss uss, maður þarf gráðu í efnafræði til að skilja innihaldslýsinguna almennilega. Ég hef þá reglu að ef ég skil ekki innihaldið, kaupi ég ekki vöruna.

Próteinduft eru eins mismunandi og þau eru mörg en best er að fá ráðleggingar í heilsubúðum varðandi það hvaða próteinduft hentar ykkar þörfum. Ég er hrifin af Solgar vörunum.

Athugið að matvinnsluvél þarf til að útbúa þessa uppskrift.


Próteinbitar fyrir líkamsræktina

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Próteinbitar

Gerir um 10-12

Innihald

 • 100 g haframjöl
 • 50 g próteinduft (úr heilsubúð)
 • 120 g cashewhnetur
 • 50 g sólblómafræ, möluð
 • 4 msk hreint hlynsíróp 
 • 2,5 msk brúnt hrísgrjónasíróp (e. brown rice syrup)
 • 2-4 msk appelsínusafi (ef þarf)

Aðferð

 1. Setjið haframjölið og próteinduftið í matvinnsluvél og malið í um 20 sekúndur eða þangað til haframjölið er fínmalað. Setjið til hliðar.
 2. Setjið hneturnar og sólblómafræin í matvinnsluvél og blandið í um 30 sekúndur eða þangað til hneturnar eru fínt saxaðar án þess að þær séu olíukenndar eða maukaðar.
 3. Setjið haframjölið aftur út í matvinnsluvélina og bætið hlynsírópinu og hrísgrjónasírópinu út í. Látið vélina vinna í um 20 sekúndur eða þangað til allt hefur blandast vel saman og auðvelt er að klípa blönduna saman á milli fingranna. Ef blandan er of stíf eða þurr, setjið þá nokkrar matskeiðar af appelsínusafa út í og blandið áfram. Setjið í skál.
 4. Mótið 35-40 g kúlur og fletjið út þannig að þær verði eins og litlir hamborgarar.
 5. Pakkið hverjum bita inn í plast.
 6. Hægt er að auka próteinmagnið með því að setja auka próteinkrem ofan á bitana.

Gott að hafa í huga

 • Hrísgrjónasíróp fæst í heilsubúðum. 
 • Nota má möndlur á móti cashewhnetunum.
 • Nota má graskersfræ á móti sólblómafræjunum.
 • Bitarnir geymast í nokkrar vikur í kæli en í nokkra mánuði í frysti.