Pride uppskriftin 2017 - cashewbúðingur

Pride uppskriftir hef ég útbúið með einhverjum hléum í 10 ár eða svo. Málefni samkynhneigðra og allra hinna sem berjast fyrir tilverurétti sínum og réttindum á Pride deginum er mikilvægt málefni fyrir mig að styðja því ég þekki svo ótalmarga sem myndu falla í einhvern af þeim flokkum sem gerir heiminn litríkari og skemmtilegri. Þó í raun maður eigi ekki að vera að flokka fólk. Mundu að þú ert einstakur/einstök eins og þú ert.

Pride uppskriftin 2017 er cashewbúðingur. Það má gera litina sterkari með öflugri matarlitum en ég nota aðeins náttúrulega matarliti sem ég kaupi í Waitrose í London og innihalda ekki aukaefni eða liti úr skordýrum. Búðingurinn myndi líka sóma sér vel sem ís ef hann er alveg frosinn en er frekar mjúkur og fínn annars. Hann er mjög saðsamur og dugar mjög líklega fyrir fleiri en 2 einstaklinga. 

Pride uppskriftin er mjólkurlaus, eggjalaus, án fræja og er vegan.

Athugið að sojalecithin er náttúrulegt efni sem þykkir vökva. Það fæst í flestum heilsubúðum, annað hvort sem duft eða korn (granules)

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Pride uppskriftin 2017 - cashewbúðingur

Fyrir 2

Innihald

 • 200 g cashewhnetur (látnar liggja í bleyti í 4 klst eða meira)
 • 100 ml sojamjólk (eða mjólk að eigin vali)10 steviadropar án bragðefna
 • Smá klípa salt
 • 50 g hlynsíróp 
 • 1 tsk soja lecithin
 • 2 msk kakósmjör
 • 1 msk kókosolía
 • Náttúrulegir matarlitir: Rauður, appelsínugulur, gulur, grænn, blár, fjólublár 

Aðferð

 1. Látið hneturnar liggja í bleyti í 4 klst eða lengur. Hellið vatninu af og setjið hneturnar í blandara ásamt mjólk, steviadropum, salti og hlynsírópi og sojalecithin. Látið vélina vinna í allavega 1 mínútu og hellið svo kakósmjörinu og kókosolíunni út í í mjórri bunu. Ef blandan er mjög þykk skuluð þið bæta svolilítilli sojamjólk til viðbótar út í blandarann og láta vélina vinna í hálfa mínútu eða svo. 
 2. Skiptið blöndunni í 6 jafna hluta og bætið nokkrum dropum af matarlit í hverja skál. Hrærið mjög vel. Takið til langa og mjóa krukku (um 350 ml) og hellið fyrsta laginu út í. Setjið í frysti í um 20 mínútur og bætið svo næsta lagi við og svo koll af kolli þangað til öll lögin eru tilbúin (litirnir í réttri röð: rauður, appelsínugulur, gulur, grænn, blár, fjólublár).
 3. Berið fram ískalt en ekki gaddfrosið.

Gott að hafa í huga

 • Kókosolían og kakósmjörið þarf að bræða áður en þið notið það. Best er að láta olíurnar standa í krukku ofan á volgri hellu þangað til þær bráðna. 
 • Nota má agavesíróp í stað hlynsíróps.
 • Nota má 20 ml af hlynsírópi til viðbótar ef þið sleppið steviadropum.