Pride uppskriftin 2016 (óbökuð kaka með salthnetu- og döðlubotni)

Á hverju ári núna í mörg ár hef ég útbúið Pride uppskrift til stuðnings margbreytilegu og alls konar fólki. Án fjölbreytileikans væri lífið afskaplega þurrt og leiðinlegt. Uppskriftirnar eru mín leið til að segja til hamingju með daginn, lífið og ástina og burt með hatur og fordóma. Vonandi njótið þið vel með ástvinum og öðrum. 

Mikilvægt er að leyfa cashewhnetunum að liggja í bleyti í um 4 klst eða jafnvel yfir nótt. Því öflugri blandara sem þið eigið því betra til að áferðin verði silkimjúk. Nota má 22 cm lausbotna form/smelluform eða minna fyrir þykkari kökusneið. Kakan er óbökuð en ekki hrá vegna salthnetanna sem eru bakaðar. 


Dásamleg hinsegin kaka í tilefni pride 2016

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Pride uppskriftin 2016 (óbökuð kaka með salthnetu- og döðlubotni)

Fyrir um 12 manns

Innihald

Botninn:

 • 80 g salthnetur úr heilsubúð
 • 80 g möndlur
 • 120 g döðlur
 • 2 kúfaðar msk cashewmauk

Fylling

 • 200 g cashewhnetur 
 • 50 ml sítrónusafi
 • 80 ml kókosolía
 • 80 ml kakósmjör
 • 80 ml hlynsíróp (eða hunang ef ekki vegan)
 • 80 ml vatn
 • 2 lófafyllir af hverri tegund: jarðarber, mangó, ananas, græn vínber, bláber og rauð vínber

Aðferð

 1. Byrjið á botninum: Setjið salthneturnar og möndlurnar í matvinnsluvél og notið púls hnappinn þangað til hneturnar eru fínt saxaðar en alls ekki maukaðar. Steinhreinsið döðlurnar og saxið mjög smátt. Setjið í matvinnsluvélina ásamt cashewhnetumaukinu. Blandið í nokkrar sekúndur eða þangað til auðvelt er að klípa blönduna saman. 
 2. Klæðið formið með plastfilmu (í kross þannig að liggi vel ofan í botninum og yfir barmana. Setjið blönduna úr matvinnsluvélina í botninn á forminu og þrýstið vel ofan á þannig að botninn verði jafn og þéttur í sér. Setjið til hliðar. 
 3. Næst skuluð þið útbúa fyllinguna: Hellið mestu af vatninu af cashewhnetunum og setjið hneturnar svo í blandara ásamt sítrónusafanum. Setjið blandarann af stað og látið hann vinna í um eina mínútu. Velgjið kókosolíuna, kakósmjörið, hlynsírópið og vatnið í potti yfir mjög vægum hita. Hrærið vel og hellið í mjórri bunu út í blandarann á meðan hann vinnur. Skafið hliðar skálarinnar ef þörf krefur og látið blandarann vinna áfram þangað til allt er orðið silkimjúkt. Hellið út í formið og berjið það svo þéttingsfast niður á borð nokkrum sinnum svo að loftbólurnar leysist upp. Setjið í frysti í um klukkustund eða fljótlega áður en bera á kökuna fram (verið búin að undirbúa og skera ávextina).
 4. Skerið mangó, ananas og jarðarber í bita (yfirleitt er óþarfi að skera vínberin og bláberin). Takið kökuna út úr frystinum og raðið ávöxtunum í réttri litaröð í kring: jarðarber, mangó, ananas, græn vínber, bláber og rauð vínber. Berið fram strax en geymið í ísskáp í nokkrar klukkustundir ef bera á kökuna fram síðar. Hún verður að fara ísköld á borðið og mun linast fljótt við stofuhita.  
   

Gott að hafa í huga

 • Mikilvægt er að hafa berin fersk og falleg.
 • Nota má brasilíuhnetur í botninn á móti salthnetunum.
 • Nota má vatnsmelónu í staðinn fyrir jarðarber.