Pride pinnar (gleðipinnar!)

Þessi uppskrift tók alveg voðalega langan tíma í undirbúningi en aðallega fyrir mig (því hún er sáraeinföld). Ég notaði Indian Tree, náttúrulega matarliti. Þeir eru ráááándýrir (mætti halda að þeir væru úr demöntum) og gefa ekki frá sér mjög sterkan lit. Það er þó þess virði að fjárfesta í svona litum (best að kaupa t.d. á Amazon) því þessir venjulegu matarlitir eru d.r.a.s.l. og bæta engan né kæta. Matarlitirnir sem ég nota eru glúteinlausir, mjólkurlausir og vegan.

Þessir frostpinnar eru sem sé til stuðnings Hinsegin daga 2013....sannkallaðir gleðipinnar!!.

 

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan
 • Hráfæði

Pride pinnar (gleðipinnar!)

6 stk

Innihald

 • 300 ml kókosmjólk
 • 100 ml hlynsíróp
 • Nokkrir dropar náttúrulegir matarlitir eftir smekk
 • 6 frostpinnaspýtur 
 

Aðferð

 1. Hrærið kókosmjólkinni saman við hlynsírópið.
 2. Skiptið vökvanum í 6 jafnstórar einingar (t.d. í 6 glös).
 3. Setjið nokkra dropa af matarlitum (eftir smekk) í hvert glas og hrærið mjög vel. Til að útbúa fjólublátt blandið þið rauðum og bláum saman og til að fá grænan blandið þið bláum og gulum saman. Til að fá appelsínugulan blandið þið rauðum og gulum. 
 4. Gott er að merkja íspinnaformið þannig að þið séuð með 6 jafnstór bil á forminu. 
 5. Hellið fyrst fjólubláa litnum og látið hann nánast frjósa alveg en áður en hann frýs í botn, stingið þá frostpinnaspýtunni í miðjuna svo hún standi vel upp úr forminu. Hellið svo bláa litnum og látið frjósa, svo græna, gula, appelsínugula og að lokum þeim rauða. 

Gott að hafa í huga

 • Nota má spirulina í staðinn fyrir græna litinn, maukað mango í staðinn fyrir appelsínugula  litinnog maukuð jarðarber í staðinn fyrir þann rauða. Minnkið kókosmjólkina þá sem ávöxtunum nemur.