Pottréttur með sojakjöti, ananas og grænmeti

Þessi pottréttur er mjög fínn og saðsamur. Maður getur gert risaskammt og hitað upp í nokkra daga því hann verður betri og betri (eru samt takmörk fyrir því hversu lengi hann dugar he he).

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Pottréttur með sojakjöti, ananas og grænmeti

Fyrir 4

Innihald

  • 2 bollar sojakjöt í smáum bitum
  • 3 msk maísmjöl eða spelti
  • 1 tsk kókosolía og smá vatn
  • 1 bolli ananasbitar + safi (í náttúrulegum safa)
  • 2 laukar í bitum, ekki of smátt saxað
  • 1 stk stórt hvítlauksrif, pressað
  • 1 græn eða rauð paprika í bitum
  • 1/8 tsk pipar
  • 1/2 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 1-2 tsk karrí
  • 1/4 tsk chilli (betra að setja minna og bæta frekar í eftir á)
  • 1/4 tsk engifer
  • 3-4 dl vatn
  • 1-2 gerlausir grænmetisteningar
  • 3-4 msk mangomauk. Hægt er að kaupa mango chutney í krukkum en það er yfirleitt hlaðið sykri.
  • 100 ml sýrður rjómi (5% án gelatíns, frá Mjólku). Einnig má nota jógúrt eða sýrðan sojarjóma. (Má sleppa)

Aðferð

  1. Leggið sojakjötið í bleyti í vatninu og grænmetisteningunum. Látið liggja í 20 mínútur -2 tíma.
  2. Blandið kryddum og öðrum þurrefnum saman í skál.
  3. Skerið lauk, hvítlauk og papriku í bita.
  4. Hitið kókosolíu í stórum potti og steikið lauk, hvítlauk og papriku. Notið vatn ef þarf meiri vökva.
  5. Setjið sojakjötið, kryddið og allt annað nema sýrða rjómann í pottinn.
  6. Hrærið vel.
  7. Látið malla í 15-20 mínútur eða lengur.
  8. Rétt áður en maturinn er borinn fram, setjið þá slettu af sýrðum rjóma ofan á pottréttinn (eða hvern disk).

Gott að hafa í huga

  • Berið fram með snittubrauði og salati. Einnig er gott að hafa hýðishrísgrjón með réttinum.
  • Gott er að gera réttinn deginum áður en á að borða hann og hita hann svo upp, verður bara betri þannig.