Pistachio og súkkulaðibitamuffins

Þessi uppskrift er glúteinlaus og er úr bókinni Gluten-Free French Desserts and Baked Goods eftir Valérie Cupillard. Muffinsarnir urðu merkilega góðir og eru þeir fyrstu glúteinlausu sem ég baka. Þeir gestir sem smökkuðu muffinsana þegar þeir voru nýkomnir úr ofninum voru sammála um að þeir væru fínir meira að segja miðað við venjulega muffinsa. Kannski voru þeir bara svona svangir, ég veit það ekki. Það átti upphaflega að vera 150 ml af smjöri og 6 egg í uppskriftinni en ég gerði hana léttari með 6 eggjahvítum á móti 2 eggjum og 6 matskeiðum af kókosolíu Það er alveg langtum nóg fita. Svo átti að vera tvöfalt meiri sykur en ég minnkaði hann líka. Afskaplega fínir muffinsar með kaffinu. Muffinsarnir á myndinni eru svolítið dökkir en ástæðan er sú að ofninn sem ég bakaði þá í, var 50 ára gamall (og stórhættulegur) svo það var enginn blástur þar nema ég opnaði ofninn og blési sjálf he he. Það var einn muffins í upphafi sem var ljósari en hinir og ég ætlaði að nota í myndatöku.. en ég borðaði hann óvart svo þið afsakið það.

Hnetunum má sleppa ef þið hafið ofnæmi.

Athugið að carob/súkkulaði getur innihaldið mjólk svo skoðið innihaldið ef þið hafið mjólkurofnæmi.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án hneta
 • Án mjólkur

Pistachio og súkkulaðibitamuffins

Gerir 12 stykki

Innihald

 • 40 stk ósaltaðar pistachio hnetur, saxaðar gróft
 • 2 epli eða perur, skrældar og saxaðar smátt
 • 4 msk dökkt súkkulaði, lífrænt framleitt með hrásykri, saxað smátt
 • 160 g hrísmjöl (enska: rice flour)
 • 40 g kartöflumjöl (enska: potato flour)
 • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 120 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
 • 2 egg
 • 6 eggjahvítur
 • 6 msk kókosolía

Aðferð

 1. Saxið pistachio hneturnar frekar gróft.
 2. Skrælið peruna eða eplið, kjarnhreinsið og saxið smátt.
 3. Saxið súkkulaðið frekar smátt.
 4. Í stóra skál skuluð þið blanda saman hrísmjöli, kartöflumjöli, salti, súkkulaði og hnetum.
 5. Í aðra skál skuluð þið hræra saman eggjum, kókosolíu og rapadura hrásykri. Hrærið vel og hellið út í stóru skálina.
 6. Bætið perunum eða eplunum út í og hrærið öllu varlega saman.
 7. Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
 8. Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
 9. Bakið við 180°C í um 35-40 mínútur.

Gott að hafa í huga

 • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
 • Ef þið finnið einungis saltaðar pistachiohnetur, getið þið skolað saltið af þeim og bakað við 180°C í 10 mínútur.
 • Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur yfirleitt mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi. Hægt er að nota mjólkurlaust súkkulaði í staðinn.