Piparkökudropar

Mig langaði svo að baka hollar piparkökur því ég elska lyktina sem kemur þegar þær eru að bakast. Ég var búin að reyna margt og var alveg komin að því að gefast upp, kökurnar annað hvort eins og kex eða bragðlausar. Svo loksins small uppskriftin. Þessar piparkökur eru hollar og fínar, innihalda sesamsmjör, rapadura hrásykur, spelti og hlynsíróp. Tahini (sesamsmjör) er mun fituminna en venjulegt smjör eða önnur olía og stútfull af hollustu eins og járni, kalki, trefjum, B1 vítamíni, fosfór, kopar, magnesíum o.fl. Sem sagt piparkökur án samviskubits :) Svona næstum því allavega. Uppskriftin er hnetulaus en athugið þó að tahini er unnið úr sesamfræjum sem sumir hafa ofnæmi fyrir.

Athugið að uppskriftin er frekar stór.

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta en með fræjum
  • Vegan

Piparkökudropar

Gerir um 50 kökur

Innihald

  • 290 g spelti 
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 2,5 tsk kanill
  • 1,5 tsk negull (enska: clove)
  • 1,5 tsk engifer
  • 0,25 tsk múskat (enska: nutmeg)
  • 125 ml tahini (sesamsmjör)
  • 3 msk kókosolía
  • 125 ml hreint hlynsíróp (enska: maple syrup)
  • 100 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
  • 125 bolli sojamjólk (eða önnur mjólk)

Aðferð

  1. Sigtið saman í stóra skál; spelti, lyftiduft, kanil, negul, engifer og múskat. Hrærið vel.
  2. Í aðra skál skuluð þið hræra saman hlynsírópi, tahini, kókosolíu, rapadura sykri og vanilludropum. Hrærið vel þannig að allt blandist vel saman og hellið svo út í stóru skálina. Hrærið vel.
  3. Bætið sojamjólkinni út í smátt og smátt, eins mikið og þið þurfið, það á að vera hægt að hnoða deigið svo það má ekki vera of blautt/klístrað.
  4. Hnoðið deigið í höndunum (eða í hrærivél með hnoðara). Bætið aðeins meira spelti út í ef þarf.
  5. Rúllið deiginu í 6 langar pylsur, pakkið inn í plast og kælið deigið í um klukkustund (eða yfir nótt).
  6. Skerið pylsurnar í um 1,5 sm bita.
  7. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og raðið piparkökudropunum á plötuna.
  8. Bakið við 180°C í um 20-25 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Athugið að kökurnar eru mjúkar þegar þær koma út úr ofninum en verða harðar þegar þær kólna. Gætið þess að baka þær ekki of lengi svo þær verði ekki eins og grjót.
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.