Peru- og engifermuffins

Þessi uppskrift kemur nokkuð breytt úr nýjustu bókinni hennar Nigellu Lawson, Nigella Express. Við getum varla verið ólíkari hvað varðar matargerð, erum alveg á öndverðum meiði hvað hollustuna varðar en ég ber engu að síður ómælda virðingu fyrir ástríðu hennar á mat og hráefni. Hún skrifar einnig skemmtilegar sögur með uppskriftinum og myndirnar í bókunum hennar eru fallegar svo henni fyrirgefst margt. Ég breytti aðeins uppskriftinni hennar og notaði mun minni sykur og notaði rapadura hrásykur og notaði aðeins 2 msk af kókosolíuí stað 125 ml af smjöri og 1 egg og eina eggjahvítu í stað 2 eggja. Ég notaði einnig sojamjólk en ekki venjulega mjólk. Muffinsarnir urðu samt djúsí og góðir, meira að segja á 3ja degi. Það nefnilega þarf ekki alltaf alla þessa fitu og allan þennan sykur í uppskriftir...þetta er oft bara ávani. Þetta eru næstum því detox muffinsar þ.e. með perunum og engiferinu sem er svo hreinsandi.

Fyrir þá sem hafa mjólkuróþol má skipta sýrða rjómanum út fyrir sojajógúrt eða sýrðan sojarjóma.

Þessi uppskrift er:

 • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur

Peru- og engifermuffins

Gerir 12 muffins

Innihald

 • 300 g perur, vel þroskaðar, saxaðar í 5 mm bita
 • 1 tsk ferskt engifer, afhýtt og saxað afar smátt
 • 250 g spelti
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1 tsk kanill (má sleppa)
 • 100 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
 • 1 msk agavesíróp eða acacia hunang
 • 100 ml sýrður rjómi (5%) án gelatíns (frá Mjólku)
 • 1 egg
 • 1 eggjahvíta
 • 50 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
 • 2 msk kókosolía

Aðferð

 1. Afhýðið engifer og saxið afar smátt (eða rífið á rifjárni).
 2. Kjarnhreinsið perurnar og skerið í litla bita.
 3. Sigtið saman í stóra skál: spelti, vínsteinslyftiduft og kanil.
 4. Í aðra skál skuluð þið hræra saman agavesírópi, sýrðum rjóma, eggi, eggjahvítu, rapadura hrásykri og kókosolíu. Hellið út í stóru skálina og blandið afar varlega saman (veltið deiginu til en ekki hræra). Deigið á að vera það blautt að það leki af sleif í stórum kekkjum og ekki t.d. það þurrt að hægt sé að hnoða það. Ef deigið er of þurrt bætið þá sojamjólkinni út í.
 5. Bætið perunum og engiferinu varlega saman við og veltið deiginu til.
 6. Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
 7. Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
 8. Bakið við 200°C í 20 mínútur.

Gott að hafa í huga

 • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.