Pastasósa

Þessa pastasósu geri ég gjarnan þegar ég hef nægan tíma og mig langar að dútla í eldhúsinu. Það er eitthvað svo dásamlegt að búa til sína eigin pastasósu. Manni líður svolítið eins og ítalskri mömmu og maður setur ósjálfrátt hendur á mjaðmir og fer að skammast. Oft getur maður reyndar keypt mjög fínar pastasósur í heilsubúðum sem eru ekki með neinum furðulegum efnum (litar-, rotvarnar- og bragðefnum) og maður getur bætt út í þær því sem maður vill t.d. sveppum, meiri hvítlauk, basil o.fl. Sósan er afskaplega holl því hún er full af andoxunarefnum og C vítamíni. Athugið að Ítalir myndu flestir nota ólífuolíu til að steikja upp úr en kókosolían er hollari til steikingar því ólífuolía skemmist við mikinn hita.

Öll kryddin miðast við að þau séu þurrkuð og möluð en þið getið notað fersk krydd líka eða í bland.


Holl og virkilega góð pastasósa

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Pastasósa

Fyrir 2-3 á pasta/spaghetti

Innihald

  • 1 stór laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 tsk kókosolía
  • 4-5 sveppir
  • 1 stilkur sellerí (má sleppa)
  • 2 kúrbítar (1 ef hann er mjög stór)
  • 2 dósir niðursoðnir tómatar, saxaðir
  • 10 steviadropar án bragðefna eða 2 msk agavesíróp
  • 2 tsk oregano
  • 1 tsk rosemary
  • 0,5 tsk basil
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 0,5 tsk steinselja
  • 1 tsk svartur pipar
  • 3 tsk tómatmauk (e. puree)
  • 1 msk ólífuolía (má sleppa)

Aðferð

  1. Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt.
  2. Sneiðið sveppina og sellerístilkinn í þunnar sneiðar.
  3. Saxið kúrbítinn smátt.
  4. Hitið kókosolíuna í potti eða djúpri pönnu. Mýkið laukinn og hvítlaukinn í nokkrar mínútur. Notið vatn ef þarf meiri vökva á pönnuna.
  5. Bætið sveppum, selleríi og kúrbít á pönnuna og hitið í um 10 mínútur.
  6. Bætið oregano, rosemary, basil, steinselju, salti og pipar út á pönnuna. Hrærið vel.
  7. Bætið tómötum, tómatmauki og steviadropum saman við og látið malla við vægan hita í 20-25 mínútur eða þangað til hún er farin að þykkna svolítið. Látið hana malla lengur ef hún er enn þá of þunn (hún á að vera svolítið þykk, eins og grautur.
  8. Ef sósan er enn of þunn, bætið þá tómatpúrre við til að þykkja hana.
  9. Kælið sósuna aðeins og hrærið 1 matskeið af ólífuolíu saman við.

Gott að hafa í huga

  • Sumum finnst gott að hafa græna papriku í pastasósum. Saxið fjórðung úr papriku og hitið með ef þið viljið.
  • Gott er að bæta við svolítið af ólífum saman við, svörtum og/eða grænum.
  • Sósuna má bera fram heita og kalda.
  • Upplagt er að gera stóran skammt af sósunni og frysta til að nota síðar. Setjið í dauðhreinsaðar krukkur (fyllið 2/3 af krukkunni) og í frystinn. 

Ummæli um uppskriftina

Helga Finns
11. maí. 2016

Hljómar mjög girnilega
Ein spurning: Væri hægt að nota ferska tómata í stað niðursoðinna?
Ef já, hversu mikið magn væri passlegt?

sigrun
11. maí. 2016

Notaðu sömu þyngd þ.e. 400 grömm = eina dós en þú þarft að sjóða þá lengur! Hef þurft að sjóða þá 20 mín lengur eða meira :)

Guðrún Júlíusdóttir
21. jún. 2018

Mér áskotnaðist pasta úr einkorni og langar að gera eitthvað skemmtilegt úr því. Ég er með mikið mjólkuróþol og finnst það ekki skýra nóg hversu maginn minn er oft í klessu þegar ég er búin að passa mig 100%. Ég ætla að prófa þessa sósu og sjá hvernig það kemur út.

sigrun
21. jún. 2018

Já, vonandi heppnast vel og að sósan fari vel í þig :)