Ofnbakaður Swahili fiskur með hnetusósu

Það eru sterk Swahili áhrif í þessum rétti en mikið er um fisk, engifer, hvítlauk, lauk og tómata við strendur Indlandshafs og víðar. Upprunaleg uppskrift er úr uppskriftabæklingi sem ég á, frá ströndinni í Mombasa og heitir höfundur þessarar uppskriftar Minah Jeffah. Hnetusósan hins vegar er úr bók sem ég keypti í Uganda. Hnetusósa er oft notuð í Swahili matargerð svo hún passar vel við þennan rétt. Ég hef breytt uppskriftinni töluvert og nota til dæmis grænmetið niðursneitt en set ekki í blandara eins og var tiltekið í uppskriftinni. Eins og þið sjáið kannski á myndinni þá er fiskurinn sem ég notaði ekki hvítur fiskur (ég notaði lax). Ástæðan fyrir því er að þegar ég var að búa til þessa uppskrift og ætlaði að fara að setja steinbítinn í form..var ormur í fiskinum (og þar með eru dagar steinbíts í minni matargerð taldir). Ég er meiriháttar viðkvæm fyrir svoleiðis í mat svo ég notaði frosinn lax sem ég átti, í staðinn. Sósan getur seint talist létt en hún inniheldur samt holla fitu og er fín með mögrum fiski.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án hneta

Ofnbakaður Swahili fiskur með hnetusósu

Fyrir 2-3

Innihald

  • 0,5 tsk kókosolía
  • 500 g ýsa, lúða eða skötuselur, roðflett og beinhreinsuð
  • 1 mango, ágætlega vel þroskað, afhýtt og sneitt í mjóar sneiðar
  • 1 laukur, afhýddur og sneiddur þunnt
  • 1 rauð paprika, sneidd þunnt
  • 3 tómatar, sneiddir þunnt
  • 4 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 tsk ferskt engifer, saxað fínt
  • 0,5 tsk svartur pipar
  • 1 msk tamarisósa
  • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Aðferð

  1. Afhýðið lauk og mango og skerið í þunnar sneiðar.
  2. Skerið paprikuna í helming, fræhreinsið, skerið í þunnar sneiðar.
  3. Skerið tómatinn í þunnar sneiðar.
  4. Setjið kókosolíu í eldhúspappír og strjúkið eldfast mót að innan.
  5. Skerið fiskinn í stóra bita og setjið í eldfasta mótið.
  6. Afhýðið hvítlauk og engifer og saxið smátt.
  7. Blandið saman tamarisósu, hvítlauk og engiferi í skál og hellið yfir fiskinn. Leyfið fiskinum að marinerast í þessu í um 30 mínútur.
  8. Raðið paprikusneiðum, lauksneiðum og tómatsneiðum ofan á fiskinn.
  9. Raðið mangosneiðum ofan á.
  10. Saltið og piprið.
  11. Hitið ofninn í 200°C og bakið fiskinn í 15-20 mínútur.
  12. Berið fram með hnetusósu.

Gott að hafa í huga

  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
  • Nota má lúðu, steinbít eða þorsk í staðinn fyrir ýsuna.
  • Nota má græna papriku í staðinn fyrir rauða.