Napoleon kjúklingur (Marengo kjúklingur)

Þennan kjúklingarétt eldaði Jóhannes einu sinni (hann eldar einu sinni á 5 ára fresti). Uppskriftin kemur upphaflega frá frænda hans Jóhannesar, honum Sigga heitnum. Siggi frændi (eins og hann var alltaf kallaður) var mjög fær kokkur, var m.a. lengi á Argentínu og einhvern tímann þegar Jóhannes vildi elda fyrir mig (vorum ekki búin að vera lengi saman) þá bað hann frænda sinn um uppskrift að einhverju góðu. Siggi lét hann hafa Marengo kjúklinginn og kallaði hann „Napoleon kjúkling” því Napoleon var jú franskur (uppskriftin er sko frönsk). En til að gera langa sögu stutta, þá er þessi réttur afar einfaldur og bragðgóður!

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta

Napoleon kjúklingur (Marengo kjúklingur)

Fyrir 2-3

Innihald

 • 1 kjúklingur frekar stór, grillaður og skinnlaus
 • 1 laukur, afhýddur og sneiddur frekar þunnt
 • 1 hvítlauksrif, afhýtt og saxað smátt
 • 150 g sveppir, sneiddir
 • 1 tsk kókosolía
 • 2 msk maísmjöl
 • 100 ml óáfengt hvítvín eða mysa
 • 100 ml tómatmauk (puree)
 • 300 ml vatn
 • 1 gerlaus grænmetisteningur
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • Fersk steinselja, söxuð (má sleppa)

Aðferð

 1. Bútið kjúklinginn í sundur, fjarlægið skinnið og matreiðið þ.e. grillið eða léttsteikið í 1 tsk kókosolíu og smá vatni.
 2. Rífið kjúklinginn í grófa strimla eða í stærri bita, eftir smekk.
 3. Hitið kókosolíu á stórri pönnu.
 4. Afhýðið laukinn og skerið í frekar þunnar sneiðar.
 5. Afhýðið hvítlauksrifið og saxið smátt.
 6. Sneiðið sveppina frekar þunnt.
 7. Mýkið laukinn á pönnunni í nokkrar mínútur. Bætið vatni við ef þarf meiri vökva. 
 8. Setjið maísmjölið á pönnuna og hrærið vel. Hitið í 2-3 mínútur.
 9. Hellið óáfenga hvítvíninu á pönnuna ásamt tómatmaukinu, vatninu, grænmetisteningnum og sveppunum. Hitið í 10 mínútur og hrærið vel.
 10. Setjið kjúklinginn í eldfast mót (óþarfi að smyrja mótið).
 11. Hellið allri sósunni yfir kjúklinginn. Saltið og piprið eftir smekk.
 12. Hitið við 190°C í 15-20 mínútur.
 13. Skreytið með saxaðri steinselju.

Gott að hafa í huga

 • Það er gott að bera fram hvítlauksbrauð með kjúklingnum. Athugið að venjulegt hvítlauksbrauð keypt frosið er mjög óhollt. Til að útbúa hollt hvítlauksbrauð má rista snittubrauð, skera hvítlauk í helming og nudda opna endanum ofan í brauðið. Því næst er hægt að setja nokkra dropa af ólífuolíu á brauðið.
 • Einnig er gott að hafa ferskt salat, hýðishrísgrjón eða jafnvel bygg með matnum.
 • Sveppina má steikja sér (upp úr vatni og salti) og bera fram sem meðlæti.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Notið „hamingjusaman kjúkling" (free range) ef þið mögulega getið.
 • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
 • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.

Ummæli um uppskriftina

gestur
14. sep. 2014

Á að hita kjúklinginn í ofni við 190 gráðu í alls 30-40mín, eða 15-20mín?
Varðandi hvítlaukinn, er það þá einn hvítlaukur þ.e. nokkrir hvítlauksgeirar?

Kærar þakkir
Kolbrún

sigrun
14. sep. 2014

Sæl Kolbrún, ekki nema von að þú spyrjir því leiðbeiningarnar voru ruglingslegar! Ég er búin að uppfæra þær og það er sem sagt eitt hvítlauksrif (ekki heill hvítlaukur) og kjúklingurinn er fyrst grillaður eða steiktur (það tekur um 70 mínútur að grilla 1,2 kg kjúkling) og svo aftur í eldföstu móti í um 15-20 mínútur (í raun bara aðeins að hita hann aftur).

Vona að þetta sé skýrt :)

Kv.

Sigrún