Myntu-, kiwi- og ananasdrykkur

Þessi uppskrift er úr bókinni Lean Food sem er úr The Australian Women’s Weekly seríunni sem ég held mikið upp á. Meiriháttar sumardrykkur og einstaklega hollur því hann er góður fyrir meltinguna og er pakkfullur af C vítamíni og andoxunarefnum. Gætið þess bara að ávextirnir séu vel þroskaðir. Þennan drykk má gera að morgni og geyma í ísskáp yfir daginn sem er upplagt ef maður er til dæmis með boð síðar um daginn.

Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa þennan drykk.
&;


Ferskur og góður sumardrykkur

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan
  • Hráfæði

Myntu-, kiwi- og ananasdrykkur

Fyrir 4 (gerir 1 lítra)

Innihald

  • 300 g vel þroskaður ananas, afhýddur, kjarnhreinsaður og skorinn í bita
  • 4 vel þroskuð kiwi (um 250 gr), afhýdd og skorin í bita
  • Ein kúfull lúka fersk myntulauf
  • 250 ml hreinn appelsínusafi
  • 12 ísmolar (ef drekka á drykkinn strax)
  • Nokkur fersk myntublöð, söxuð

Aðferð

  1. Afhýðið ananasinn, kjarnhreinsið og skerið í stóra bita. Setjið ananasinn í blandara og blandið í um 30 sekúndur eða þangað til hann er orðinn að silkimjúku mauki. Hellið í stóra könnu
  2. Afhýðið kiwiin og skerið í stóra bita. Setjið í blandara ásamt myntublöðunum. Blandið í um 5 sekúndur en án þess að steinarnir í kiwiunum fari að merjast því þá getur drykkurinn orðinn rammur. Hellið í könnuna.
  3. Setjið ísmolana í blandarann (ef þið ætlið að drekka drykkinn strax og hann er tilbúinn, annars sleppið þið ísmolunum) og hellið 50 ml af appelsínusafanum út á. Blandið í nokkrar sekúndur. Hellið innihaldi könnunnar út í blandarann ásamt afganginum af appelsínusafanum og blandið í um 5 sekúndur. Hellið aftur í könnuna.
  4. Geymið í ísskáp ef ekki á að bera drykkinn fram strax.
  5. Hellið í glös og berið fram. Dreifið söxuðum myntublöðum yfir hvert glas áður en drykkurinn er borinn fram.

Gott að hafa í huga

  • Ef þið viljið mikið myntubragð má auka magn myntunnar.