Mung baunaspírur

Þessar hefðbundnu baunaspírur sem maður kaupir t.d. í austurlenskan mat eru yfrleitt mung baunir. Það er auðvelt að láta þær spíra og þær eru afar bragðgóðar. Baunaspírur eru eitt það hollasta sem maður borðar vegna ensímanna sem verða til við spírun! Þær eru frábærar í salöt, ofan á t.d. hummus í samlokum og í alls kyns núðlurétti. Svo eru þær fínar sem snarl.


Mung baunaspírur vinstra megin en óspíraðar baunir hægra megin

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan
 • Hráfæði

Mung baunaspírur

1 skammtur

Innihald

 • 1 lúka mung baunir
 • 1 hrein glerkrukka (gætið þess að hún sé a.m.k. 5 sinnum stærri en magnið af baununum)
 • 200 ml vatn

Aðferð

 1. Látið vatn fljóta yfir baunirnar í krukkunni. Látið liggja í bleyti í 8 tíma.
 2. Hellið vatninu af og skolið baunirnar. Hellið aftur af.
 3. Látið baunirnar standa við stofuhita.
 4. Skolið baunirnar 3-5 sinnum á dag í 3-5 daga. Gætið þess að spíra ekki baunirnar of lengi.
 5. Þegar spíruendarnir eru orðnir gulleitir eru baunirnar búnar að vera of lengi að spírast.
 6. Til að hægja á spírunarferlinu má geyma spírurnar í ísskáp og skola þær af og til. Þær geymast þannig í allt að viku eða meira.

Gott að hafa í huga

 • Ef baunaspírurnar eru orðnar gular má gjarnan blanda þær eilítið í matvinnsluvél og nota í brauð, bragðast mjög vel!
 • Ef spírunin gengur hægt eða illa, getur verið að baunirnar séu orðnar gamlar. Gætið þess að kaupa nýjar, lífrænt ræktaðar baunir (skoðið dagsetninguna á pakkanum).