Morgunverður í glasi

Þessi drykkur er beint úr bókinni Innocent smoothie recipe book frá Innocent fyrirtækinu hér í London sem gerir bestu smoothie drykki í heimi (að mínu mati!!). Fyrirtækið er dásamlegt því það hugsar ekki bara um gróða og skjótan pening í vasann heldur greiða þeir 10% af öllum gróða beint til bænda og þeirra sem rækta það sem fyrirtækið þarf. Þeir styðja líka alls kyns verkefni í þróunarlöndum og skapa þar vinnu og sanngjarna viðskiptahætti. Allt hráefni er lífrænt ræktað. Fyrir þá sem eru ekki hrifnir af hafragraut á morgnana þá er þessi drykkur fullkominn því í honum eru hafrar, döðlur, banani, hunang og jógúrt. Fullkomin byrjun á deginum.

Ef þið hafið glúteinóþol getið þið sleppt haframjölinu. Ef þið eruð jurtaætur (enska: vegan) getið þið notað agavesíróp í staðinn fyrir hunang.

Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa þennan drykk.
&;


Morgunmatur í glasi, góð byrjun á deginum

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Vegan (fyrir jurtaætur)

Morgunverður í glasi

Fyrir 2

Innihald

 • Nokkrir ísmolar
 • 5 Medjool döðlur (þessar mjúku)
 • 125 ml hreinn eplasafi
 • Hálfur banani
 • 2 tsk acacia hunang (eða agavesíróp)
 • 200 ml sojajógúrt (eða hrein jógúrt/AB mjólk)
 • 20 g haframjöl

Aðferð

 1. Setjið ísmolana í blandarann og hellið 50 ml af eplasafanum út á. Blandið í nokkrar sekúndur.
 2. Bætið döðlunum og afganginum af eplasafanum út í og blandið í heila mínútu eða þangað til döðlurnar eru silkimjúkar (blandið lengur ef þið notið þurrkaðar döðlur).
 3. Bætið banana, jógúrt, haframjöli og hunangi saman við og blandið í um 30 sekúndur.
 4. Hellið í glös og berið fram strax.

Gott að hafa í huga

 • Í stað hunangs má nota hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) eða agavesíróp.
 • Ef þið finnið ekki Medjool döðlur (fást stundum í heilsubúðum og í stærri matvöruverslunum), getið þið sett venjulegar, þurrkaðar döðlur í bleyti í 30 mínútur. Hellið vatninu af og maukið döðlurnar.
 • Það er ægilega gott að setja svolítið hnetusmjör út í drykkinn. Útbúið ykkar eigið hnetusmjör eða kaupið úr heilsubúð.