Möndlu- og kókoskaka með bláberjabotni
18. ágúst, 2008
Þessi kaka er án glúteins og er mjög einföld í smíðum. Ég fann uppskriftina á vef konu sem heitir Jeena og ég held mikið upp á.
Þessi kaka er án glúteins og er mjög einföld í smíðum. Ég fann uppskriftina á vef konu sem heitir Jeena og ég held mikið upp á. Upplögð kaka með kaffinu og hún er góð fyrir þau tilefni sem bera þarf á borð köku sem allir geta borðað. Það er ekki amalegt að nota fersk, íslensk bláber í botninn.
Athugið að þið þurfið frekar nett brauðform fyrir þessa uppskrift. Ef þið finnið möndlumjöl þurfið þið ekki matvinnsluvél eða blandara til að útbúa uppskriftina.
Glúteinlaus möndlukaka með bláberjabotni
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
Möndlu- og kókoskaka með bláberjabotni
Gerir 1 kökubrauð
Innihald
Kakan:
- 2 msk kókosolía
- 6 msk agavesíróp
- 4 msk möndlumjöl (fínmalaðar möndlur)
- 2 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
- 2 tsk rifinn börkur af appelsínu og sítrónu (má sleppa)
- 150 g kókosmjöl
- 2 msk hrísmjöl (enska: rice flour)
- 2 egg
- 0,5 tsk vínsteinslyftiduft
Bláberjabotninn:
- 100 g möndlur, saxaðar gróft
- 4 msk bláberjasulta
- 6 tsk agavesíróp
- 3 msk hrísmjöl
- 0,25 tsk möndludropar (úr heilsubúð)
Aðferð
- Ef þið fáið ekki möndlumjöl, setið þá möndlur eða möndluflögur í matvinnsluvél eða blandara. Blandið þangað til möndlurnar verða fínkornóttar án þess að verða olíukenndar.
- Blandið saman í skál; kókosolíu, möndlumjöli, kókosmjöli, vanilludropum og agavesírópi. Hrærið vel.
- Bætið egginu við ásamt hrísmjöli og vínsteinslyftiduftinu og hrærið vel. Setjið skálina til hliðar.
- Saxið möndlurnar smátt.
- Í annarri skál skuluð þið blanda saman söxuðu möndlunum, bláberjasultu og agavesírópi.
- Rífið börkinn af appelsínu eða sítrónu mjög fínt á rifjárni.
- Bætið hrísmjölinu og möndludropunum saman við ásamt appelsínu/sítrónuberkinum.
- Klæðið lítið brauðform með bökunarpappír.
- Dreifið vel úr bláberjablöndunni í botninn á forminu.
- Dreifið innihaldinu úr hinni skálinni yfir bláberjabotninn.
- Bakið við 180-200°C í um 25 mínútur.
Gott að hafa í huga
- Gott er að setja 30 g af söxuðu, dökku súkkulaði, lífrænt framleiddu með hrásykri (t.d. frá Rapunzel) út í deigið.
- Ef þið fáið ekki möndlumjöl í heilsubúð getið þið malað 8 möndlur mjög fínt (án þess þó að þær verði að olíukenndu mauki).
- Nota má aðra bláberjasultu en heimatilbúna og t.d. eru sulturnar frá St. Dalfour og Himneskri hollustu mjög góðar.
- Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024