Melónu- og jógúrtdrykkur
Hreinsandi og nærandi drykkur (smoothie), fullur af vítamínum. Upplagður í morgunsárið eða að loknum krefjandi vinnudegi þegar mann langar í eitthvað sætt... en hollt.
Kantalópur (enska: cantaloupe) eru pakkfullar af C og A vítamínum (Beta Carotine) og eru mikilvægir bakhjarlar, með sínum andoxunaráhrifum þegar kemur að því að sporna gegn krabbameini. A vítamín er einnig mikilvægt fyrir sjónina sem og fyrir heilbrigð lungu. Nafnið á kantalópum er komið frá samnefndu ítölsku þorpi en þar voru kantalópur fyrst ræktaðar í kringum árið 1700. Þessi ávöxtur er úr sömu fjölskyldu og gúrkur og grasker sem er svolítið fyndið. Kantalópur heita stundum netmelónur (enska: nettet melon) vegna þess að fínlegt, ljóst net vex utan á ávextinum. Þá er fyrirlestri dagsins lokið um kantalópur, allir orðnir svangir og best að búa til drykkinn holla!
Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa þennan drykk.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Melónu- og jógúrtdrykkur
Innihald
- Hálf, vel þroskuð kantalópa
- 100 ml hreinn appelsínu eða eplasafi
- 1 vel þroskuð pera, afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í stóra bita
- Hálfur banani (má sleppa)
- 100 ml sojajógúrt (eða AB mjólk)
- Nokkrir ísmolar
Aðferð
- Skerið melónuna í hálft og afhýðið hana. Skafið út steina og annað og skerið melónukjötið í bita.
- Afhýðið peruna, kjarnhreinsið og skerið í stóra bita.
- Setjið ísmolana í blandarann og hellið 50 ml af appelsínusafanum út á. Blandið í um 5 sekúndur.
- Setjið melónu, banana og peru út í blandarann og blandið í um 10 sekúndur eða þangað til mjúkt.
- Bætið appelsínusafanum og jógúrtinni út í.
- Blandið í um 10 sekúndur eða þangað til silkimjúkt.
Gott að hafa í huga
- Einnig er gott að nota hreinan ananassafa.
- Nota má hunangsmelónu í staðinn fyrir kantalópu.