Matarmikil krabbakjöts/núðlusúpa

Þetta er matarmikil og holl, kínverk súpa þar sem í henni er mikið af grænmeti og nær engin fita. Það er upplagt að gera stóran skammt af súpunni og borða daginn eftir líka því hún verður bara betri með smá geymslu.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án hneta

Matarmikil krabbakjöts/núðlusúpa

Fyrir 4

Innihald

  • 1 tsk kókosolía
  • 1 tsk „Chinese five-spice powder"
  • 2 gulrætur, skornar í mjóa strimla
  • 170 g maískorn, frosið eða úr dós (án sykurs)
  • 90 g frosnar, grænar baunir (enska: peas)
  • 6 vorlaukar (grænu og ljósu hlutarnir notaðir), sneiddir í um 1 sm bita
  • 1 rauður chili pipar, fræhreinsaður og saxaður smátt 
  • 400 g krabbakjöt, frosið eða niðursoðið
  • 175 hrísgrjónanúðlur (eða aðrar núðlur sem þið viljið nota)
  • 1,7 lítri af vatni
  • 2-3 gerlausir grænmetisteningar
  • 3 msk fiskisósa (Nam Plah)
  • 3 msk tamarisósa
  • 2 eggjahvítur
  • 2 msk maísmjöl (enska: cournflour) eða arrow root

Aðferð

  1. Sjóðið hrísgrjónanúðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum, hellið vatninu af, látið kalt vatn renna á þær, sigtið vel og setjið til hliðar.
  2. Afhýðið gulræturnar og skerið í mjóa strimla (um 2 sm).
  3. Skerið chili piparinn langsum og fræhreinsið. Saxið smátt.
  4. Snyrtið vorlaukinn og skerið í um 1 sm bita.
  5. Hitið kókosolíu í stórum potti ásamt nokkrum matskeiðum af vatni..
  6. Bætið kínverska kryddinu út í ásamt gulrótum, maískorni, grænum baunum, chili pipar og vorlauk.
  7. Hitið í 5 mínútur og hrærið allan tímann. Notið vatn ef vantar meiri vökva á pönnuna.
  8. Bætið krabbakjötinu við og hitið í 1 mínútu, dreifið vel úr kjötinu.
  9. Setjið grænmetisteningana út í ásamt vatninu og tamarisósunni og látið sjóða í nokkrar mínútur.
  10. Lækkið hitann og leyfið súpunni að malla í nokkrar mínútur.
  11. Sláið eggjahvíturnar lauslega (gætið þess að þær freyði ekki) og bætið maísmjölinu út í. Hrærið þangað til það leysist upp.
  12. Hellið blöndunni varlega út í miðju pottsins, í mjórri en stöðugri bunu og hrærið stöðugt í á meðan. Gott er að nota sósupískara eða gaffal.
  13. Bætið hrísgrjónanúðlunum saman við.
  14. Hrærið aðeins og berið fram í djúpum skálum ásamt djúpum skeiðum og prjónum

Gott að hafa í huga

  • Það má alveg fara frjálslega með hlutfall á innihaldi, t.d. má hafa meira af grænmeti í staðinn fyrir krabbakjöt, meira eða minna af núðlum o.s.frv.
  • Í upphaflegu uppskriftinni var ekki gert ráð fyrir eggjum en mér finnst þau passa vel með svona súpu, gerir hana þykkari og matarmeiri og gefur manni auka prótein og vítamín.
  • Í staðinn fyrir hrísgrjónanúðlur má nota soba núðlur, udon núðlur, speltnúðlur o.s.frv.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
  • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
  • „Chinese Five Spice” fæst  í flestum stærri matvöruverslunum.