Mangomauk (mango chutney)

Ég er svo ótrúlega montin yfir að hafa búið til mango chutney og það eitt besta mango chutney sem ég hef smakkað. Hef ætlað mér að búa það til í mörg ár þar sem það er afar erfitt að finna mango chutney í búðinni sem inniheldur ekki sykur og annað rugl. Hélt alltaf að þetta væri miklu erfiðara en það var svo. Það jafnast ekkert á við að bera fram sitt eigið mango chutney!! Nigella seeds (Nigella fræ) eru svört, eins og dropar í laginu og fást yfirleitt í austurlenskum matvöruverslunum eða sælkeraverslunum. Þau ganga undir ýmsum nöfnum eins og kalonji, black onion seeds, fennel flower, nutmeg flower, Roman coriander, blackseed og black caraway. Þessi fræ eru EKKI svört sesamfræ eða kúmen eða venjuleg laukfræ (onion seeds) eða coriander fræ. Nigella fræin eru oft notuð t.d. í indversk naan brauð. Ef þið finnið þau ekki er betra að sleppa þeim heldur en að nota eitthvað í staðinn. Reynið samt eins og þið getið að finna þau því þau virkilega setja punktinn yfir i-ið.


Mango chutney, frábært með indverskum mat

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta en með fræjum
 • Án hneta
 • Vegan

Mangomauk (mango chutney)

Fyrir 5-6 sem meðlæti (250 ml)

Innihald

 • 1 tsk kókosolía
 • 1 hvítlauksgeiri, pressaður
 • 0,5 tsk ferskt engifer, rifið
 • 1 kanilstöng
 • 1 tsk nigella fræ
 • 2 negulnaglar (enska: cloves)
 • 1 tsk cumin fræ (líka kölluð jeera seeds), ekki kúmen
 • 0,5 tsk paprika eða chili fyrir þá sem vilja sterkara bragð
 • 500 g mango (eftir snyrtingu), ágætlega þroskað
 • 170 ml edik
 • 40 g kókossykur (e. coconut sugar)
 • 5 dropar Stevia (natural/óbragðbætt) eða 10 g kókossykur til viðbótar
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt) eftir smekk

Aðferð

 1. Afhýðið hvítlaukinn og engiferið. Saxið afar smátt.
 2. Skerið mangoið langsum með fram steininum. Takið hvora hlið og afhýðið. Skerið í frekar smáa bita. Skafið kjötið af steininum og skerið í um 1 sm x 1 sm bita. Athugið að þið þurfið 500 g af mangokjöti.
 3. Hitið kókosolíuna í potti eða á djúpri pönnu á meðalhita.
 4. Setjið hvítlaukinn og engifer út í og hitið í um 1 mínútu ásamt cumin fræjunum.
 5. Bætið papriku, kanilstöng, negulnöglum, mangoi, ediki, kókossykri, stevia og salti út á pönnuna. Bætið ekki Nigella fræjunum saman við. Látið suðuna koma upp.
 6. Lækkið hitann og látið malla í um klukkutíma, hrærið öðru hvoru.
 7. Eftir suðuna ætti áferðin að líkjast sultu, mikið kekkjótt en samt farin að verða vel blönduð saman (ekki mikið af glærum vökva og aðskildum bitum heldur frekar eins og mauk).
 8. Smakkið til með salti og bætið meira papriku við ef þið viljið
 9. Fjarlægjið negulnaglana og kanilstöngina.
 10. Bætið Nigella fræjunum út í hér og hrærið saman við.
 11. Setjið sjóðandi heitt maukið í sótthreinsaðar krukkur (sjóðið krukkur og lok í 10 mínútur).

Gott að hafa í huga

 • Mango chutney er indverskt að uppruna og hentar því frábærlega með indverskum mat, sérstaklega sterkum mat ásamt jógúrtsósum.
 • Geymist óopnað í nokkra mánuði.
 • Mango chutney má einnig frysta.

Ummæli um uppskriftina

Svava
05. júl. 2011

Langar að benda ykkur á að Nigella fræ er hægt að fá frá Pottahgöldrum (eru í litlum poka) og fást m.a í Fjarðarkaupum ;)

sigrun
05. júl. 2011

Frábært, takk fyrir að láta okkur vita Svava :)

Rúna
18. okt. 2011

Á hvaða tímapunkti fer mangóið út í pottinn/pönnuna? (það kemur ekki fram í "Aðferð".

sigrun
18. okt. 2011

Góður punktur, búin að lagfæra :)

Sigurbjörg
19. júl. 2012

Hvernig edik notar þú í þessa uppskrift?

sigrun
19. júl. 2012

Bara venjulegt borðedik, ég hefði annars tekið fram ef um eitthvað annað edik hefði verið að ræða :)