Mango- og kókosís

Þessi ís er afar bragðgóður enda mjög skemmtilegt bragð sem kemur þegar maður blandar mango og kókos saman. Bragðið verður bæði suðrænt og seiðandi.&; Upprunaleg uppskrift kemur úr lítill bók sem ég á en í þeirri uppskrift var bæði gelatín (matarlím m.a. unnið úr beinamjöli dýra og ég nota það alls ekki) og feitasti rjómi sem um getur svo uppskriftin er dálítið mikið breytt. Ísinn er upplagður fyrir þá sem ekki mega borða egg eða mjólkurvörur. Hann hentar einnig þeim sem eru jurtaætur (enska: vegan).

Athugið að nauðsynlegt er að nota matvinnsluvél eða blandara til að útbúa þennan ís en ekki er nauðsynlegt að nota ísvél.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Mango- og kókosís

Gerir rúmlega 1 lítra

Innihald

  • 1 stórt vel þroskað mango, afhýtt og saxað gróft
  • 20 g kókosmjöl
  • 60 ml agavesíróp
  • 1 msk hlynsíróp (enska: maple syrup), (má nota agavesíróp í staðinn)
  • 200 ml kókosmjólk (eða hafrarjómi)
  • 150 ml sojamjólk 
  • 1 msk límónusafi

Aðferð

  1. Afhýðið mangoið og skerið kjötið í bita.
  2. Setjið mangoið í matvinnsluvél ásamt kókosmjöli, kókosmjólk, agavesírópi, límónusafa og hlynsírópi. Blandið í um 30 sekúndur eða þangað til silkimjúkt. Á meðan vélin vinnur skuluð þið bæta sojamjólkinni saman við og blanda áfram í um 5 sekúndur.
  3. Ef notuð er ísvél: Setjið blönduna í ísvél í um 30 mínútur og setjið svo í plastbox. Setjið boxið í frystinn og frystið í nokkrar klukkustundir eða þangað til ísinn er tilbúinn.
  4. Ef ekki er notuð ísvél:
  5. Hellið blöndunni í grunnt plastbox og setjið í frystinn. Takið út frystinum á um hálftíma - klukkustundar fresti og brjótið ískristallana ef þeir myndast. Endurtakið þangað til erfitt er orðið að hræra í blöndunni.
  6. Látið ísinn þiðna í ísskáp í um 30-40 mínútur áður en hann er borinn fram. Þannig verður auðveldara að skafa úr boxinu.

Gott að hafa í huga

  • Nota má meira kókosmjöl ef þið eruð hrifin af kókosbragðinu.
  • Mjög gott er að nota kjöt af ungri kókoshnetu (Thai Young Coconut) í ísinn, ef þið komist í svoleiðis.
  • Nota má banana í staðinn fyrir mango eða á móti mangoinu.
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hann í ísmolabox og nota síðar.
  • Nota má hafrarjóma eða sojarjóma í staðinn fyrir kókosmjólk. Ég er hrifin af Oatly hafrarjómanum (athugið að hafrar innihalda glútein).
  • Ísinn er sérlega góður í bananasplitt!

Ummæli um uppskriftina

Harpa H
18. mar. 2015

Hefur þú prufað annað sætuefnum í stað maple og agave síróps og eins og Via health Steviu ofl?

sigrun
18. mar. 2015

Sæl. Til þess að geta notað aðra sætu þarftu sykur í einhverju formi (upp á áferðina á ísnum, annars endarðu með frostpinna) og ég myndi þá helst mæla með bönunum. Steviu geturðu notað á móti en hún hefur ekki þessa áferð sem maður er að leita eftir í ís. Droparnir eru mjög fínir í ískrap en ekki í venjulegan ís, þar þarf maður einhverja sætu eins og hlynsíróp, döðlusíróp, agavesíróp o.s.frv.