Límónu- og macadamiakökur

Macadamiahnetur minna mig alltaf á Afríku og þá sérstaklega Kenya því í hvert skipti sem ég fer þangað kaupi ég hrúgu af macadamiahnetum enda eru þær ódýrar þar. Macadamiahnetur eru dýrustu hnetur í heimi hvorki meira né minna. Þær eru svooo góðar og yfirleitt er ég að maula þessar hollu hnetur á meðan ég þvælist um í Afríku. Hneturnar í þessu kökum eru ekki það eina sem minna á Afríku því ég sá í fyrsta skipti á ævinni avocadotré í Tanzaníu, þegar við vorum á ferð þar í mars 2008, lengst upp í Usambarafjöllum. Við vorum búin að keyra á kræklóttum fjallvegi í dágóða stund, komin í 2200 metra hæð og þar komum við í fjallaþorp sem var umlukið hitabeltisgróðri, fjöllum og mistri. Ótrúlegur staður. Það var á þessum slóðum sem ég fann lítið kaffihús, lengst í burtu frá öllu og öllum. Það hét Irente’s Farm Shop og seldi m.a. muesli, sultur og passion fruit (ástaraldin) þykkni. Við röltum um þorpið í smá stund (engir túristar enda langt úr alfaraleið) og ég rak þá einmitt augun í avocadotré við vegkantinn og gamla, hrukkótta konu sem var að tína nokkur stykki í skjóðuna sína líklega til að hafa í matinn. Hún er ekki einungis með skjóðu á bakinu, heldur einnig lifandi hænu, bundna við sig. Límónur eru einnig víða notaðar í Austur-Afríku sérstaklega með alls kyns rauðlauks- og tómatsalötum (t.d. Kachumbari). Ég veit reyndar ekki alveg hvers vegna ég er að blanda Afríku í málið því þessar kökur eru ekki baun afrískar þó að hráefnið sé mjög afrískt!

Ég fann uppskriftina í bók sem heitir Raw Food Real World og er meiriháttar. Ég breytti uppskriftinni bara örlítið. Skeljarnar má undirbúa deginum áður og fyllinguna er hægt að útbúa að morgni ef kökurnar eru bornar fram að kvöldi. Kökurnar henta sérstaklega vel t.d. í matar- eða saumaklúbb að sumri (en ég útbý þær reyndar allan ársins hring)! Macadamia hnetur innihalda einómettaðar fitusýrur (meiri en í ólífuolíu) sem eru góðar fyrir hjartað og talið er að neysla á þeim geti lækkað kólesteról í blóði. Þær eru einnig próteinríkar, trefjaríkar og innihalda kalk. Avocado þarf ekki að kynna fyrir neinum en þau innihalda andoxunarrík E, C og A vítamín. E vítamín hjálpar einnig til við að halda húðinni fallegri og blóðrásinni góðri. Einnig innihalda avocado holla fitu og B5 vítamín sem er mikilvægt til að hjálpa okkur í streituástandi. Gera má eina stóra köku eða nokkrar minni. Athugið að svolítill afgangur verður af kreminu sem upplagt er að nota t.d. í smoothie (drykk), frysta í ís eða borða bara beint upp úr skálinni, enda svakalega gott.

Athugið að þið þurfið 4 x 10 sm form til að útbúa skeljarnar í, eða eitt stærra form. Athugið einnig að þið þurfið matvinnsluvél til að útbúa uppskriftina.


Grænar og vænar límónukökur, afskaplega hressandi og góðar

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan
 • Hráfæði

Límónu- og macadamiakökur

Gerir 4 litlar kökur eða eina stóra

Innihald

Skeljarnar:

 • 260 g macadamiahnetur
 • 75 g kókosmjöl
 • 1 msk fínt rifinn börkur af límónu (enska: lime)
 • 2 msk límónusafi
 • 2 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
 • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 3 msk agavesíróp
 • 1 msk kókosolía

Fyllingin:

 • 5 vel þroskuð avocado, afhýdd
 • 125 ml límónusafi
 • Börkur af 4-5 límónum, rifinn fínt
 • 2 msk kókosolía
 • 125 ml agavesíróp
 • 2 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
 • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1 límóna í þunnum sneiðum til að skreyta með (má sleppa)

Aðferð

 1. Best er að byrja á skeljunum:
 2. Rífið 1 msk af límónuberki mjög fínt á rifjárni.
 3. Setjið macadamiahnetur, kókosmjöl, límónubörk, límónusafa, vanilludropa, salt og agavesíróp í matvinnsluvélina.
 4. Malið í 5-10 sekúndur eða þangað til hneturnar hafa molnað vel en eru ekki orðnar að mauki (verða of olíukenndar ef maukaðar of mikið).
 5. Setjið kókosolíuna út í og malið í 2-3 sekúndur eða þangað til auðvelt er að klípa deigið saman.
 6. Klæðið 4 lítil bökuform (10 sm í þvermál) eða eitt stórt form að innan með plastfilmu.
 7. Skiptið deiginu í 4 hluta og setjið í bökuformin.
 8. Botn og hliðar ættu að vera um það bil jöfn að þykkt.
 9. Setjið í ísskáp og geymið á meðan þið búið til fyllinguna.
 10. Rífið börkinn á 4-5 límónum smátt á rifjárni.
 11. Afhýðið avocado og fjarlægið steininn. Setjið avocadoið í matvinnsluvél ásamt límónuberki, agavesírópi, vanilludropum og salti.
 12. Látið vélina vinna þangað til avocadoið er orðið kekkjalaust og allt hefur blandast vel saman.
 13. Hellið helmingnum af límónusafanum (rúma 60 ml) út í og blandið áfram. Hellið afganginum af límónusafanum út í ef þið teljið þurfa. Maukið má ekki vera of blautt þannig að það t.d. renni hratt af skeið.
 14. Bætið kókosolíunni saman við og maukið vel. Setjið í skál, setjið plastfilmu yfir og geymið í ísskáp í um 30 mínútur.
 15. Takið skeljarnar og fyllinguna úr ísskápnum.
 16. Fjarlægið plastið undan skeljunum og setjið þær á fallega diska eða einn stóran disk.
 17. Fyllið skeljarnar með avocadomaukinu.
 18. Skreytið með límónusneiðum.
 19. Setjið plastfilmu yfir kökurnar og geymið í ísskáp ef ekki á að borða þær strax.

Gott að hafa í huga

 • Hægt er að gera skeljarnar 1-2 dögum áður en bökurnar eru útbúnar.
 • Best er að gera avocadofyllinguna samdægurs svo hún haldi þessum fallega græna lit sínum.
 • Avocadofyllingin gerir frábæran ís, sem og búðing.
 • Gott er að dreifa kakónibbum eða kókosmjöli, rifnum límónuberki eða söxuðum macadamiahnetum til skrauts.