Kryddaðir appelsínu- og gulrótarmuffins

Ég fékk þessa uppskrift úr einni muffins bók sem ég á sem heitir Muffins; Fast and Fantastic. Ég tók út 90 ml af olíu eða smjöri og setti 125 ml af ávaxtamauki í staðinn (lífrænt framleiddum og sykurlausum barnamat) ásamt 1 msk af kókosolíu. Muffinsarnir geymast kannski ekki eins lengi og ef þeir væru með næstum því 1000 auka hitaeiningum og 100 g af fitu en þeir klárast alltaf svo hratt að það skiptir engu máli. Ef einhverjir verða afgangs er upplagt að frysta muffinsana og borða síðar.


Þessir eru ægilega góðir og passlega kryddaðir

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án hneta

Kryddaðir appelsínu- og gulrótarmuffins

Gerir 10-12 muffins

Innihald

 • 280 g spelti
 • 2,5 tsk vínsteinslyftiduft
 • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1,5 tsk kanill
 • 0,25 tsk múskat (enska: nutmeg)
 • 0,25 tsk negull (enska: clove)
 • Börkur af 1 appelsínu, rifinn fínt á rifjárni
 • 110 g gulrætur, afhýddar og rifnar gróft á rifjárni
 • 2 egg
 • 90 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
 • 125 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
 • 30 ml appelsínusafi (ef þarf)
 • 1 msk kókosolía
 • 85 g rúsínur
 • 50 g pecan- eða valhnetur, saxaðar til að setja ofan á (má sleppa)

Aðferð

 1. Sigtið saman í stóra skál; spelti, vínsteinslyftiduft, salt, negul, kanil og múskat. Hrærið vel.
 2. Saxið hneturnar smátt.
 3. Skrælið gulræturnar og rífið gróft á rifjárni.
 4. Rífið appelsínubörkinn fínt á rifjárni. Gætið þess að rífa aðeins appelsínugula hlutann, ekki þann hvíta.
 5. Í annarri skál skuluð þið hræra saman eggjum, hrásykri, barnamat og kókosolíu. Bætið gulrótum og appelsínuberki saman við. Hrærið vel og hellið út í stóru skálina.
 6. Hrærið mjög varlega í deiginu (rétt veltið því við), bara rétt svo þannig að deigið blandist saman.
 7. Setjið rúsínurnar út í, við síðustu hræruna. Ekki hafa áhyggjur af því ef deigið er ljótt og kekkjótt, það á að vera þannig. Deigið á að vera það blautt að það leki af sleif í stórum kekkjum og ekki t.d. það þurrt að hægt sé að hnoða það.
 8. Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
 9. Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
 10. Dreifið hnetunum yfir.
 11. Bakið við 190°C í um 25 mínútur.

Gott að hafa í huga

 • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.
 • Nota má valhnetur í staðinn fyrir pecanhnetur. Setja má hneturnar í deigið í staðinn fyrir ofan á það (eða hvoru tveggja)
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Ég nota Hipp Organic, Organix eða Holle barnamat. Þessi merki eiga það sameiginlegt að vera lífrænt framleidd og eru ekki með viðbættum sykri.
 • Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
 • Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.

Ummæli um uppskriftina

gestur
11. des. 2012

Mjög góðar, átti að vísu ekki múskat og notaði appelsínumarmelaði en þær heppnuðust mjög vel og glöddu gestinn sem kom óvænt í heimsókn núna fyrir hádegi.

sigrun
11. des. 2012

Gaman að heyra og líst vel á að redda sér svona með því sem til er.... :)