Kryddað kjúklinga- og vínberjasalat
Þetta er einfaldur og hollur réttur, upplagður á sumardegi eða þegar maður vill bera fram kaldan og hollan rétt. Hann inniheldur fullt af vítamínum, kalki og próteinum til að halda heilsunni í lagi og er fitusnauður að auki. Það finnst mér alltaf góð blanda!! Þessi réttur er líka upplagður þegar maður er tímabundinn fyrir t.d. saumaklúbb því það má búa hann til vel áður en á að bera hann fram. Látið hann standa úti á borði um klukkutíma áður en á að borða hann (ef þið geymið hann í ísskáp í langan tíma). Já svo er rétturinn frábær í nestisboxið (er mér sagt).
Ef þið hafið eggjaóþol getið þið notað jógúrt/sýrðan rjóma í staðinn fyrir majones. Ef þið hafið möndluóþol getið þið sleppt þeim. Ef þið hafið mjólkuróþol má vel nota hreina sojajógúrt í staðinn fyrir sýrða rjómann.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án eggja
- Án hneta
- Án mjólkur
Kryddað kjúklinga- og vínberjasalat
Innihald
- 500 g grillaðar (helst) kjúklingabringur, skinnlausar og rifnar í strimla.
- 2 sprotar sellerí sneiddir fínt
- 250 g steinalaus blá vínber, skorin til helminga (má nota græn líka)
- 60 g möndluflögur, þurrristaðar
Karrísósa
- 175 g sýrður rjómi frá Mjólku, (5% fita, án gelatíns). Einnig má nota jógúrt
- 50 ml majones eða meira af sýrðum rjóma frá Mjólku (5% fita, án gelatíns)
- 1 msk agavesíróp
- 2 tsk karrí
- 0,25 tsk paprika
- 0,25 tsk chili
- 0,25 tsk svartur pipar
- Blandið öllu saman í skál og kælið
Aðferð
- Grillið kjúklinginn eða steikið í 1 tsk kókosolíu og vatni. Kælið og rífið kjúklinginn í strimla.
- Skerið vínberin til helminga og selleríið í sneiðar.
- Þurrristið möndluflögurnar á heitri pönnu (án olíu) í 3-5 mínútur.
- Setjið kjúklinginn, vínberin, möndluflögur og sellerí í skál.
- Blandið saman í skál því sem á að fara í karrísósuna: sýrðum rjóma (eða jógúrti), majonesi (eða meira af sýrðum rjóma), agavesírópi, karríi, papriku, chili og svörtum pipar. Hrærið vel saman.
- Hellið karrísósunni yfir kjúklinginn og blandið öllu vel saman.
- Berið fram á diskum eða í skálinni (og hver og einn skammtar sér á disk).
Gott að hafa í huga
- Það er gott að bera fram salat með t.d. klettasalati (ruccola), eikarlaufi, lamhagasalati, jöklasalati, kirsuberjatómötum og þurrristuðum graskersfræjum.
- Einnig er gott að bera fram gróft snittubrauð með réttinum eða glúteinlaust brauð fyrir þá sem hafa glúteinóþol.
- Notið „hamingjusaman kjúkling" (þ.e. free range).
- Ef þið þurfið að steikja kjúklinginn steikið hann þá upp úr 1 tsk af kókosolíu og vatni
Ummæli um uppskriftina
23. maí. 2011
Einstaklega gott og saðsamt salat.
Takk fyrir frábæra og einfalda uppskrift :)
24. maí. 2011
Gaman að heyra að þér hafi líkað salatið :)
20. jún. 2013
Geri þessa uppskrift oft í tímaþröng og allir svangir. Kaupi tilbúinn, grillaðan kjúkling sem ég ríf niður og græja restina með (fjarlægi samt alltaf grillhúðina af). Hollur og góður réttur á mettíma.
Takk fyrir góðar uppskriftir og velkomin heim :)
Áslaug Þ.
20. jún. 2013
Takk Áslaug :) Gaman að heyra að öll fjölskyldan geti notið matarins. Það er alltaf markmiðið :)