Kryddað graskerskökubrauð
7. nóvember, 2006
Þetta kökubrauð er upplagt að gera þegar maður á svolítinn afgang af graskeri því maður þarf bara 225 g af graskersmauki í uppskriftina. Kökubrauðið er kryddað og sætt og passar vel með sunnudagskaffinu. Grasker er mjög hollt, fullt af Beta-Carotine sem er andoxunarefni og á að hjálpa okkur að sporna t.d. gegn krabbameini. Brauðið er best sama dag og maður bakar það en einnig má frysta brauðið og hita upp við annað tækifæri.
Mér þykir þægilegast að nota butternut grasker því þau eru ekki of stór en þið getið keypt graskersmauk í dósum án viðbættra efna eða sykurs.
Athugið að þið þurfið matvinnsluvél eða blandara og stórt brauðform til að útbúa þessa uppskrift.
Ilmandi kryddað graskerskökubrauð
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án hneta
Kryddað graskerskökubrauð
Gerir 1 kökubrauð
Innihald
- 225 g butternut graskersmauk (um 300 g grasker)
- 90 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
- 5 dropar stevia án bragðefna
- 1 msk hlynsíróp
- 1 msk kókosolía
- 2 egg
- 185 g spelti
- 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 0,5 tsk múskat (e. nutmeg)
- 1,5 tsk kanill
- 0,5 tsk negull (e. cloves)
- 2 tsk vínsteinslyftiduft
- 50 g pecanhnetur, saxaðar (má sleppa)
Aðferð
- Afhýðið graskerið, fræhreinsið og skerið í bita. Setjið í pott með vatni (þannig að rétt fjóti yfir) og sjóðið í um 20 mínútur eða þangað til mjúkt. Kælið lítillega. Hellið umframvatninu í vaskinn. Setjið graskerið í matvinnsluvél eða blandara og maukið í um 30 sekúndur eða þangað til mjúkt. Þið þurfið 225 g af graskersmauki en getið fryst afganginn ef einhver er. Setjið graskersmaukið í skál.
- Hrærið hrásykur, steviadropum, hlynsírópi, kókosolíu og eggjum saman við graskersmaukið. Blandið vel saman.
- Í stórri skál skuluð þið blanda saman spelti, salti, múskati, negul og vínsteinslyftidufti. Hrærið vel.
- Hellið graskersblöndunni í stóru skálina og hrærið varlega (rétt svo þannig að hráefnin blandist saman). Deigið á að vera það blautt að það leki af sleif í stórum kekkjum og ekki t.d. það þurrt að hægt sé að hnoða það.
Saxið hneturnar ef þið notið þær og blandið þeim varlega saman við. - Klæðið brauðform með bökunarpappír og hellið deiginu í formið. Gætið þess að það fari vel í öll horn.
- Bakið við 180°C í um 40 mínútur. Ef deigið er blautt gæti þurft að bæta um 10 mínútum við baksturstímann
Gott að hafa í huga
- Ef kakan er ekki tilbúin eftir 60 mínútur en er orðin dökk að ofan getið þið sett álpappír á toppinn og bakað lengur.
- Ef frysta á brauðið þegar það hefur kólnað má annað hvort frysta það heilt, eða skera það í sneiðar og frysta hverja sneið fyrir sig. Þannig er auðvelt að kippa einni og einni sneið út og setja t.d. í brauðrist eða bakaraofn.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
- Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
- Ef afgangur er af maukaða graskerinu getið þið fryst það og notað síðar.
- Hægt er að kaupa grasker, ósykurbætt og maukað í dósum í stærri matvöruverslunum.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024