Kraftaköggull - fyrir ræktina

Þessir orkubitar eru alveg svakalega fínir og alveg æðislegir eftir ræktina til að hjálpa vöðvunum aðeins til að stækka. Það er góð orka og holl fita í bitunum og þeir eru því upplagðir líka í skólann, í vinnuna, í gönguna, í bíltúrinn o.s.frv. Gætið að því að börn ættu ekki að borða próteinduft nema í samráði við lækni eða næringarfræðing. Börn ættu því ekki að borða þessa bita. Það má líka auðvitað sleppa próteinduftinu! Ég á alltaf hrúgu af þessu kraftakögglum í ísskápnum því Jóhannes borðar 2 á dag! Ég geri alltaf tvöfaldan skammt sem dugar í um 3-4 vikur.

Athugið að nauðsynlegt er að nota matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift.


Kraftar í kögglum, góður próteinbiti fyrir ræktina

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Kraftaköggull - fyrir ræktina

Gerir um 10 -12 stykki

Innihald

Kraftaköggullinn:

 • 125 g cashewhnetur
 • 40 g möndlur
 • 50 g kókosmjöl
 • 1 bolli puffed rice (eða hrískökur)
 • 250 g gráfíkjur, skerið litla stubbinn á endanum af, saxið fíkjurnar gróft
 • 60 g döðlur, saxaðar gróft
 • 80 g rúsínur
 • 2-4 msk hreinn appelsínusafi
 • 2 msk hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) eða agavesíróp
 • 4 msk kakó (eða carob)
 • 2 msk próteinduft (úr heilsubúð, t.d. Solgar)

Próteinkremið:

 • 40 g próteinduft (úr heilsubúð, t.d. Solgar)
 • 2 tsk kakó eða carob
 • 2-3 msk hlynsíróp (enska: maple syrup). Mikilvægt er að nota hlynsíróp en ekki agavesíróp

Aðferð

Aðferð - kraftaköggullinn:

 1. Setjið möndlur, hnetur, kókosmjöl og puffed rice (eða hrískökur) í matvinnsluvél og blandið í um 1 mínútu eða þangað til hneturnar eru orðnar fínmalaðar án þess að vera maukaðar.
 2. Bætið kakói út í, ásamt próteinduftinu og malið áfram í nokkrar sekúndur. Setjið í stóra skál.
 3. Saxið döðlur og gráfíkjur gróft og setjið út í matvinnsluvélina ásamt rúsínum. Munið að snúa litlu stubbana af gráfíkjunum af og fleygja þeim. Blandið í um 30 sekúndur eða þangað til gróft saxað.
 4. Bætið hlynsírópi og appelsínusafanum út í og blandið í um 2 mínútur eða þangað til mjög smátt saxað (en ekki maukað). Ef illa gengur að blanda ávextina, bætið þá aðeins af appelsínusafa út í. Setjið ávaxtamaukið í stóru skálina og hrærið öllu vel saman. Gott er að nota deigkók og hrærivél en ekki nauðsynlegt. Áferðin á deiginu á að vera nokkuð þétt, alls ekki blaut en allt á samt að festast vel saman ef klipið á milli fingranna.
 5. Gott að láta blönduna bíða aðeins í kæli, betra er að móta bitana þannig.
 6. Mótið kúlur (aðeins minni en golfkúlur) og fletjið svo út þannig að verði um 1 sm að þykkt. Raðið á stóran disk.

Aðferð - Próteinkremið:

 1. Blandið kakói, próteindufti og hlynsírópi varlega saman. Hrærið þangað til vel blandað saman.
 2. Kremið ætti vera eins og þykkt síróp að áferð, má leka hægt að skeið en má alls ekki dropa. Bætið meira af próteindufti og kakói út í ef það er alveg fljótandi. Athugið að þó kremið virki stíft, þá á það til að linast upp og leka svolítið. Best er að gera tilraun með einn bita og sjá hvernig hann kemur út og blanda þá kreminu samkvæmt hlutföllum sem henta best fyrir það próteinduft sem þið notið.
 3. Smyrjið um 0,5 tsk á hvern bita og látið harðna í ísskáp (harðnar alveg á 2-3 dögum en fer eftir því hvað kremið var blautt).
 4. Þegar kremið er orðið alveg hart má pakka bitunum inn í plast.

Gott að hafa í huga

 • Það er ofsalega gott svona til tilbreytingar að bæta við rifnum appelsínuberki (af einni appelsínu) og 3 msk af appelsínumarmelaði eða appelsínusultu út í blönduna (hreinni, án viðbætts sykurs, án gelatíns og án auka- og bragðefna).
 • Notið aðeins hlynsíróp í kremið þ.e. ekki byggmaltsíróp, agavesíróp eða hunang því það harðnar ekki eins og hlynsírópið og því erfiðara að pakka bitunum inn.
 • Solgar próteinduftið hentar jurtaætum (a.m.k. það sem ég kaupi) og fæst í flestum heilsubúðum. Nota má annað próteinduft en athugið þá að hlutföllin fyrir innihald kremsins gætu breyst.
 • Puffed Rice (sprengd hrísgrjón) fæst einnig í heilsubúðum. Nota má puffed spelt (inniheldur glútein) eða hrískökur í staðinn.

Ummæli um uppskriftina

Arndís
01. jún. 2012

Veistu hvað eru ca. margar hitaeiningar í einni svona?

sigrun
01. jún. 2012

Ég tel aldrei talið hitaeiningar svo ég er alveg týnd.....ég myndi giska á eitthvað í kringum 100 hitaeiningar en fer eftir stærð auðvitað?

Soffía
17. jún. 2012

Frábær síða sem reyndist mér m.a. mjög vel við að undirbúa fyrstu göngu fjölskyldunnar :)
Takk fyrir okkur!

sigrun
18. jún. 2012

Gleður mig að heyra Soffía..... :)